Home / Fréttir / Uppnám í Hvíta húsinu undir stjórn Trumps

Uppnám í Hvíta húsinu undir stjórn Trumps

902082902-jpg-0

Umsögnin um bókina Fire and Fury er eftir Kristinn Valdimarsson

Bókin Fire and Fury eftir bandaríska blaðamanninn Michael Wolff kom út föstudaginn 5. janúar 2018.  Wolff skrifar reglulega greinar í ýmis blöð svo sem USA Today, The Hollywood Reporter og New York Magazine.  Í bókinni fjallar hann um lokamánuði kosningabaráttu Donalds Trumps og fyrstu mánuði hans í embætti Bandaríkjaforseta en segja má að bókinni ljúki þegar ráðgjafi hans Stephen Bannon hvarf úr Hvíta húsinu í ágúst í fyrra.  Bókin er reist á fjölmörgum viðtölum sem Wolff tók við starfsmenn Hvíta hússins (og aðra).  Þó aðeins séu liðnir nokkrir dagar frá útgáfu bókarinnar hefur hún þegar vakið mikið umtal enda eru margir áfjáðir í að fræðast betur um stjórnarhætti Trumps sem hefur allt frá fyrsta degi verið mjög umdeildur forseti.  Áhugi á bókinni vekur hins vegar litla gleði í Hvíta húsinu og nú þegar hafa menn þar, ekki síst Trump sjálfur, og ýmsir tengdir stjórn hans fordæmt bókina og sagt hana algera þvælu.

Við lestur bókarinnar skýrist hvers vegna Trump og fylgismenn hans hafa brugðist við útgáfu hennar af svona mikilli hörku því í henni er dregin upp afar neikvæð mynd af 45. forseta Bandaríkjanna.   Wolff segir Trump aldrei hafa haft neinn raunverulegan áhuga á því að verða forseti.  Tvær meginástæður liggi að baki því að hann fór í framboð.  Önnur þeirra er að Trump tók því mjög illa þegar Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti gerði grín að honum árið 2011 fyrir að vera í forsvari þeirra sem héldu því fram að Obama hefði ekki mátt bjóða sig fram því hann væri fæddur í Kenía.  Hin ástæðan er að Trump hugðist nýta framboðið til þess að vekja meiri athygli á sér.   Þar sem Trump reiknaði ekki með sigri þá gaf hann sér ekki tíma til að setja saman stefnuskrá fyrir framboð sitt.  Þegar hann stóð skyndilega uppi sem sigurvegari vissi hann því ekki sitt rjúkandi ráð.

Eftir að Trump tók við völdum hafa undirmenn hans því þurft að geta sér til um hvaða stefnumálum hann vill ná fram.  Það er hins vegar hægara sagt en gert því afstaða Trumps er oft óskýr.  Þekkingar- og skipulagsleysið hefur þegar leitt til vandræða og nefnir höfundur m.a. innflytjendalög Trumps sem fóru fyrir dómstóla, utanríkisstefnu sem virðist oft ráðast af hugdettum forsetans frekar en hagsmunum Bandaríkjanna og ákvörðun hans um að reka yfirmann Alríkislögreglunnar (FBI).

Wolff segir þrjá aðila hafa keppst um að hafa áhrif á Trump á fyrstu mánuðum hans í embætti.  Einn þeirra er Stephen Bannon sem nefndur var til sögunnar hér að framan.  Hann er mjög gagnrýninn á stefnu Bandaríkjanna á síðustu áratugum og reyndi að leiða Trump inn á nýjar brautir.  Svo var það Reinhold Priebus sem hafði sagt af sér sem formaður Repúblikanaflokksins til þess að taka við embætti liðsstjóra (Chief of Staff) í Hvíta húsinu en því embætti gegndi hann til loka júlí í fyrra.  Markmið hans var að færa Trump nær hefðbundnum gildum flokksins og fá hann til þess að treysta meira á þingið en þar eru repúblikanar í meirihluta.  Þriðji aðilinn var dóttir Trumps, Ivanka og maður hennar Jared Kushner.  Þau eru í raun demókratar að sögn Wolffs og reyna að toga Trump í þá átt.

Fram kemur í Fire and Fury að alvarlegasta vandamál Trumps sé þó ekki ringulreiðin sem ríkir í Hvíta húsinu heldur rannsókn FBI á tengslum kosningastjórnar hans við rússnesk stjórnvöld og á því hvort þessir aðilar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar.  Það mál hefur undið upp á sig á síðustu mánuðum ekki síst vegna þess að ýmsir nánir samstarfsmenn Trumps hafa verið staðnir að lygum varðandi tengsl þeirra við Rússa.  Jafnvel þótt FBI komist að þeirri niðurstöðu að samskipti framboðsins og Rússa séu lögleg þá siglir Trump ekki lygnan sjó því hætt er við að rannsóknin leiði FBI á slóð fjárfestinga hans.  Hann stundaði lengi fasteignaviðskipti og ekki alltaf á heiðarlegan hátt að mati ýmsra.   Fordæmi er fyrir því að fasteignaviðskipti hafi komið ráðamönnum í Hvíta húsinu í koll en Spiro Agnew varaforseti Nixons þurfti að segja af sér eftir að upp komst að hann var flæktur í fasteignabrask.

Höfundurinn fléttar síðan inn í frásögnina sálfræðilegri greiningu á Trump.  Að mati Wolffs þá treystir forsetinn á það sem kalla má tilfinningagreind.  Ákvarðanir hans ráðast af því hvaða tilfinningu hann hefur um tiltekin mál frekar heldur en greiningu á þeim eða ráðum annarra.  Svo er hann afar hörundssár.  Hann er því illa í stakk búinn til þess að takast á við starf sem mótast af hefðum, krefst víðtækrar þekkingar og hörð gagnrýni er daglegt brauð.

Helstu kostir bókarinnar eru að hún er vel skrifuð og höfundi tekst að draga upp skýra heildarmynd af forsetatíð Trumps.  Það er hins vegar óljóst hversu nákvæm sú mynd er en aðgangur höfundarins að Hvíta húsinu er nokkuð á huldu.  Þannig er ekki ljóst hvort hann hafi fengið formlegt leyfi til þess að vera þar innan dyra, hvort hann hafi haft óheftan aðgang að starfsfólki og hvort það hafi yfir höfuð vitað hvað hann var að gera þar.  Þegar við bætist að lesandinn veit lítið um heimildamenn höfundar, að tvennar sögur fara af áreiðanleika Wolffs og bent hefur verið á nokkrar villur í bókinni er því rétt að taka frásögninni með nokkurri varúð.  Það styrkir þó óneitanlega málflutning hans að frásögnin fellur vel að fréttum um gang mála í Hvíta húsinu síðasta árið þ.e. að þar sé allt í hers höndum.  Óhætt virðist því að álykta að það sem höfundurinn segir sé í stórum dráttum rétt þó rétt sé að setja fyrirvara við sumar frásagnir hans.  Ég gef því bókinni þrjár stjörnur af fimm.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …