Home / Fréttir / Uppnám eftir að Trump greinist með kórónuveiruna

Uppnám eftir að Trump greinist með kórónuveiruna

Donald Trump
Donald Trump

„Jarðskjálfti“ og „hugsanlega hættulegasta augnablik nokkru sinni fyrir Bandaríkjastjórn,“ á þennan veg eru fyrstu viðbrögð í bandarískum og alþjóðlegum fjölmiðlum að morgni föstudags 2. október vegna fréttarinnar um að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania, eiginkona hans, hafi greinst með kórónuveiruna.

Nú eru aðeins 32 dagar til kjördags 3. nóvember og eru fjölmiðlar sammála um að veikindin hafi gífurlega þýðingu fyrir kosningabaráttuna.

Á það er bent í The New York Times að allt frá því að kórónuveirunnar varð vart hafi Trump viljað gera sem minnst úr hættunni af henni:

„Þótt hann sé ekki alvarlega veikur getur jákvæð greining reynst spilla fyrir honum pólitískt þar sem hann hefur mánuðum saman viljað gera sem minnst úr hættunni af faraldrinum, sama þótt hann þjakaði þjóðina og yrði um 1.000 manns að aldurtila dag hvern,“ segir The New York Times.

Trump skýrði sjálfur frá því um klukkan 05.00 á íslenskum tíma föstudaginn 2. október á Twitter að hann og kona sín hefðu greinst með veiruna.

„Við förum samstundis í einangrun og hefjum bataferlið. Við sigrumst á þessu saman,“ stóð á Twitter.

Forsetinn hefur rúmlega 86,5 milljónir fylgjenda á Twitter og eftir að hann tilkynnti veikindi sín hafa þúsundir þeirra látið í sér heyra. Þeir lýsa yfir stuðningi við hjónin og óska þeim góðs bata en aðrir segja að honum hafi verið nær að bregðast ekki af nærri alvöru við veirunni.

Þjóðarleiðtogar senda forsetanum kveðjur sínar og góðar óskir.

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Segir á Twitter-síðu sinni. „Forsetahjónin eru í bænum okkar og allir hjá bandaríska sendiráðinu biðja fyrir skjótum bata þeirra. Styrkur forsetans og forsetafrúarinnar er okkur öllum innblástur.“

Forsetaskrifstofan segir að Donald Trump sinnum skyldum sínum eins og áður en dregið er í efa að svo sé í raun. Hann sé í áhættuhópi vegnar aldurs síns (74 ára) og líkamsþunga. Þetta sé í raun eitt alvarlegasta atvik áratugum saman í sögu forsetaembættisins.

Hvarvetna á æðstu stöðum í Washingston D.C. og einkum innan flokks repúblikana velta menn fyrir sér hve víða veiran hafi dreift sér. Trump ræddi við Joe Biden, frambjóðanda demókrata, að kvöldi þriðjudags 29. september. Nú verður tekið sýni úr Biden. Spurning vaknar hvenær síðasta sýni úr Trump reyndist neikvætt. Upplýsingar um þetta ráða ákvörðunum um sóttkví.

Vangaveltur um hvort nægilega hafi verið hugað að sóttvörnum vegna kappræðnanna í Cleveland setja svip á fréttir að morgni föstudags 2. október. Hafi Trump verið smitberi þá hvort hann hafi getað smitað Biden. Trump hæddist þar að Biden fyrir að ganga með grímu til að hemja veiruna– Biden var ekki með grímu þegar hann deildi við Trump sem fór mikinn.

Donald Trump spáði því að kvöldi 1. október að það mætti sjá merki um að COVID-19-faraldurinn væri á undanhaldi.

Skömmu síðar barst frétt um að Hope Hicks, náinn ráðgjafi og aðstoðarmaður forsetans, hafi greinst með veiruna. Hicks var í föruneyti forsetans um borð í flugvél hans þriðjudaginn 29. og miðvikudaginn 30. september. Fyrri daginn fór hann til kappræðnanna í Cleveland, Ohio, seinni daginn sótti hann kosningafund í Minnesota-ríki.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …