Home / Fréttir / Upplýst um rússneskt kjarnorkuslys á norðurslóðum

Upplýst um rússneskt kjarnorkuslys á norðurslóðum

 

 Myndin er tekin 12. ágúst 2019 í lokuðu borginni Sarov um 370 km fyrir austan Moskvu. Fólk kom saman til að kveðja fimm rússneska kjarnorkuvísindamenn sem fórust þegar reynt var að bjarga ónýtri, kjarnorkuknúinni stýriflaug.
Myndin er tekin 12. ágúst 2019 í lokuðu borginni Sarov um 370 km fyrir austan Moskvu. Fólk kom saman til að kveðja fimm rússneska kjarnorkuvísindamenn sem fórust þegar reynt var að bjarga ónýtri, kjarnorkuknúinni stýriflaug.

Rússnesk stjórnvöld hafa beitt þöggun til að kæfa umræður um mannskæða sprengingu í kjarnakljúfi í ágúst 2019 þegar unnið að var að því á hafi úti að bjarga einu af ofurvopnum Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, það er kjarnorkuknúinni stýriflaug sem kölluð er Skyfall.

Þetta er haft eftir háttsettum embættismanni í bandaríska utanríkisráðuneytinu í The Washington Times sunnudaginn 20. október.

Kjarnorkukljúfurinn sprakk 8. ágúst undan norðurströnd Rússlands við bæinn Nenoska á Arkhangelsk-svæðinu. Sjö Rússar týndu lífi en þeir voru á pramma á Hvítahafi og unnu að því að bjarga Skyfall af hafsbotni. Stýriflaugin hafði hvílt í um það bil eitt ár á botninum eftir misheppnað tilraunaskot, sagði Thomas G. DiNanno í bandaríska utanríkisráðuneytinu.

„Sprenginguna má rekja til alvarlegs atviks í tengslum við Skyfall, stjórnlaus kjarnaklofningur varð til þess að hættulegir geislar skullu á Rússunum sem reyndu að ná flauginni af hafsbotni,“ sagði DiNanno í samtali við The Washington Times.

Bandaríski embættismaðurinn sagði að vegna þessa atviks hefðu menn í fyrsta lagi áhyggjur af upplýsingafölsunum Rússa, í öðru lagði af því að kjarnorkuflaug hefði legið í eitt ár á hafsbotni og í þriðja lagi að Rússar hefðu í fyrstu reynt að fela atvikið.

DiNanno sinnir afvopnunarmálum í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Hann skýrði fyrst frá Skyfall-atvikinu á fundi fyrstu nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 10. október 2019.

Í von um að geta haldið atvikinu leyndu slökktu Rússar á geislamælum, tengdum alþjóðlegu eftirlitskerfi sem stjórnað er í Vín til að tryggja að farið sé að alþjóðareglum um bann við kjarnorkutilraunum.

Sprengingin varð vegna þess að sjór hætti að kæla vökva í kjarnakljúfinum.

Sé Skyfall beitt í hernaði verður stýriflaugin annað hvort með kjarnaodd eða venjulegan sprengjuodd. Það á að vera unnt að senda hana hvert sem er án tillits til vegalengda. Skyfall er eitt af fimm langdrægum kjarnavopnum sem Pútin kynnti með miklum bægslagangi í mars 2018.

DiNanno segir að geislavirka skýið vegna atviksins hafi haft staðbundin áhrif næst slysstaðnum. Ástæða sé til að hafa áhyggjur af viðbrögðum rússneskra yfirvalda, tilraunum þeirra til upplýsingafalsana og þöggunar.

Vegna sprengingarinnar mældist 2,4 stiga jarðskjálfti. DiNanno segir að tiltölulega lítil sprenging sé hættuleg þegar kjarnakljúfur eigi í hlut og full ástæða sé að velta fyrir sér hvers vegna í ósköpunum flauginn hafi verið skotið af stað, látin liggja á hafsbotni í eitt ár og síðan hafi vitneskja um ónýtu flaugina ekki fengist fyrr en vegna misheppnaðrar björgunaraðgerðar.

Eftir björgunarslysið voru fluttar misvísandi skýringar í rússneskum ríkisfjölmiðlum á lokun svæða á landi og sjó án þess að segja hana mætti rekja til stýriflaugar.

Upplýsingafalsanirnar voru reistar á yfirlýsingum um að orðið hefði óhapp á heræfingu, bilun í storm-viðvörunarkerfi og hættulegt efni hefði lekið á hafi úti. Þá birtu ríkismiðlarnir einnig rangar fréttir um að geislavirkni hefði ekki aukist.

Það var ekki fyrr en tveimur dögum eftir Skyfall-atvikið sem rússneska kjarnorkustofnunin, Rosatom, tilkynnti að fimm vísindamenn hefðu dáið.

Þegar DiNanno var spurður hvers vegna bandaríska utanríkisráðuneytið hefði ákveðið að veita upplýsingar um málið sagði hann: „Við töldum mikilvægt að leiða sannleikann í ljós og láta aðra vita um það sem við teljum að hafi gerst við Nenoska.“

Lögð hefði verið áhersla á að vinna sem best úr haldbærum upplýsingum og sannreyna þær auk þess sem gætt væri þess trúnaðarstigs sem bæri að virða í málum sem þessum. Með því að birta upplýsingarnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna væri Rússum og Kínverjum einnig gert ljóst að Bandaríkjastjórn væri full alvara þegar hún vildi endurnýja eftirlitskerfi með vígbúnaði.

 

 

ap_19224514398310_c73-0-4142-2373_s885x516

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …