Home / Fréttir / Upplýsingafalsanir Rússa vegna efnavopnaárásar í Sýrlandi

Upplýsingafalsanir Rússa vegna efnavopnaárásar í Sýrlandi

Hugað að fórnarlömbum árásarinnar.
Hugað að fórnarlömbum árásarinnar.

Þrátt fyrir að alþjóðastofnunin Organisation for the Prohibition of Chemical Weapons (OPCW) sem fylgist með að banni við efnavopnun sé framfylgt fullyrði með vísan til óumdeildrar niðurstöðu sérfræðinga að sarín-eiturgasi hafi verið beitt á Khan Sheikhun svæðinu í Sýrlandi halda miðlar hlynntir Kremlverjum áfram að þyrla upp moldviðri til að villa mönnum sýn í málinu og birta upplýsingafalsanir um það, segja sérfræðingar ESB í lygamiðlun á netinu.

Fyrir nokkrum dögum birti opinbert málgagn rússneska þingsins grein þar sem fullyrt var að Rússar hefðu fyrir löngu afhent fulltrúum Sameinuðu þjóðanna efni og önnur gögn sem sönnuðu grunsemdir um að efnavopnum hefði verið beitt í Aleppo í Sýrlandi en ekkert hefði verið gert með þessi sönnunargögn.

Vegna þessa hefur OPCW birt yfirlýsingu þar sem segir að stofnunin hafi aldrei fengið nein slík sönnunargögn frá rússneskum yfirvöldum. Stofnunin mundi hins vegar að sjálfsögðu taka slík gögn til rannsóknar bærust þau.

Sérfræðingar ESB segja að þessi fréttaflutningur Rússa nú minni á það sem gerðist eftir að farþegavélin MH17 var skotin niður með eldflaug yfir Úkraínu. Þá sögðust Rússar einnig hafa lagt fram sönnunargögn sem hefðu verið „sniðgengin“. Rannsakendur slyssins sögðust aldrei hafa fengið nein slík gögn frá Rússum.

Í greiningu sérfræðinga ESB segir að þrátt fyrir að efnavopnum hafi augljóslega verið beitt haldi miðlar hlynntir Kremlverjum því stöðugt fram að sýrlenski herinn hafi ekki átt hlut að máli, það sé óhugsandi af því að hann eigi engin efnavopn. Í skýrslu frá OPCW frá ágúst 2016 segir hins vegar að eftirlitsstofnunin hafi getað staðfest notkun efnavopna á vegum sýrlenskra stjórnvalda eftir þann dag sem að sögn þessara sömu stjórnvalda var lokadagur notkunar vopnanna að þeirra fyrirmælum enda hefðu þau öll verið eyðilögð.

Sérfræðingar ESB segja að í þessu máli hafi einnig verið gripið til klassískra aðferða í von um að geta dreift athyglinni og að geta tengt saman átökin í Sýrlandi og Úkraínu. Fjölmiðlar í þágu Kremlverja hafi einnig sakað Úkraínumenn um að bera ábyrgð á tilvist efnavopna í Sýrlandi án þess að hafa nokkuð fyrir sér í málinu.
Heimild: Disinformation Review, fimmtudag 27. apríl 2017

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …