
Það kom fram í sjónvarpsviðtali við Mark Zaid, lögfræðing uppljóstrarans um óhæfilegt símtal Donalds Trumps Bandaríkjanna við forseta Úkraínu, að annar uppljóstrari, starfsmaður bandarískrar leyniþjónustustofnunar, hefði greint frá vitneskju sinni um samskipti Trumps við Úkraínumenn.
Mark Zaid sagði sunnudaginn 6. október stjórnanda ABC News on Sunday að seinni uppljóstrarinn hefði vitneskju frá fyrstu hendi um símtal Donalds Trumps við Volodímír Zelenskíj, forseta Úkraínu. Trump er sakaður um að hafa beitt viðmælanda sinn þrýstingi til að gera sér pólitískan greiða. Hefur seinni uppljóstrarinn greint eftirlitsmanni með starfsemi bandarískra leyniþjónustustofnana frá vitneskju sinni.
Í fyrri viku boðaði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að formleg rannsókn til undirbúnings ákæru á hendur forsetanum hefði hafist. Ástæðan væri að Donald Trump lægi undir grun um að hafa leitað aðstoðar erlendrar ríkisstjórnar vegna endurkjörs síns haustið 2020. Pelosi sagði athafnir forsetans grafa undan trú á bandarísku kosningakerfi og ógna þjóðaröryggi.
Þungamiðju hneykslisins er að finna í kvörtun uppljóstrara úr röðum leyniþjónustumanna um efni símtals við Zelenskíi 25. júlí 2019 þar sem Trump á að hafa þrýst á viðmælanda sinn að hann léti grafast fyrir um óhróður tengdan Joe Biden, fyrrverandi varaforseta, hugsanlegan keppinaut forsetans í kosningum í nóvember 2020, og Hunter syni hans.
Komi fram annar uppljóstrari eykst enn þrýstingur á forsetann. Hann bregst illa við þessum ásökunum, veitist að mönnum á báða bóga telji hann þá sækja að sér. Hann réðst fyrst á upphaflega uppljóstrarann og sagðist vilja hitta „ákæranda“ sinn og einnig þann sem „veitti honum ólöglega þessar upplýsingar“.
„Var þessi einstaklingur AÐ NJÓSNA um forsetann? Miklar afleiðingar,“ skrifaði Donald Trump á Twitter 30. september.
Að kvöldi laugardags 5. október skrifaði forsetinn enn á Twitter að fyrsti svonefndi uppljóstrarinn hefði haft upplýsingarnar um símtal sitt frá öðrum og farið algjörlega ranglega með efni þess, nú væri sá orðrómur á sveimi að þeir ætluðu að munstra annan „uppljóstrara“ úr Djúpríkinu og hann hefði upplýsingar sínar einnig frá öðrum. „Látum þá koma!“ sagði forsetinn.