Home / Fréttir / Upplausn meðal þýskra jafnaðarmanna eftir afsögn formannsins

Upplausn meðal þýskra jafnaðarmanna eftir afsögn formannsins

 

Andrea Nahles
Andrea Nahles

Andrea Nahles, formaður þýska Jafnaðarmannaflokksins (SPD), sagði af sér sunnudaginn 2. júní vegna útreiðarinnar sem flokkur hennar fékk í kosningunum til ESB-þingsins sunnudaginn 26. maí. Hann fékk aðeins 15,8% og tapaði 11 stigum frá kosningunum 2014.

Tómarúmið á toppi flokksins verður til bráðabirgða fyllt af þremur varaformönnum hans: Manuelu Schwesig, Malu Dreyer og Thorsten Schäfer-Gümbel. Þau ætla að undirbúa formannskjör en tóku skýrt fram á blaðamannafundi mánudaginn 3. júní að þau ætluðu ekki að bjóða sig fram til formennsku.

Angela Merkel kanslari segir að þýska ríkisstjórnin starfi áfram eins og ekkert hafi í skorist.

SPD er nú þriðji stærsti flokkur Þýskalands á eftir kristilegum (CDU/CSU) og græningjum.

Nahles segir ekki aðeins af sér flokksformennskunni heldur einnig formennsku í þingflokki SPD. Hún tók við forystu í flokknum í febrúar 2018 eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningar til sambandsþingsins í september 2017.

CDU/CSU og SPD mynduðu „stóra samsteypustjórn“ eftir kosningarnar 2013 og ákváðu eftir nokkra þrautagöngu að halda áfram samstarfi eftir kosningarnar 2013.

Kjörtímabilinu nú lýkur 2021. Vangaveltur magnast um hvort stjórn Merkel lifi svo lengi. Hún er ekki lengur formaður CDU en segist ætla að leiða ríkisstjórn út kjörtímabilið. Margir telja líklegt að Merkel neyðist til að biðjast lausnar, rjúfa þing og boða til kosninga.

Kristilegir eru ekki spenntir fyrir kosningum núna enda standa þeir illa samkvæmt skoðanakönnunum. Í könnun sem birt var laugardaginn 1. júní mælast græningjar stærsti flokkurinn í Þýskalandi.

Annegret Kramp-Karrenbauer, arftaki Merkel sem formaður CDU, hvetur SPD til að leggja sitt áfram af mörkum til að tryggja starfhæfa ríkisstjórn í Þýskalandi.

„Ég geng að því sem vísu að SPD taki skjótar ákvarðanir um forystu sína og að stóra samsteypustjórnin okkar geti starfað áfram án vandræða,“ sagði hún sunnudaginn 2. júní.

Stóra samsteypustjórnin er ekki óskastjórn allra sem standa að henni núna. Olof Scholz, vara-kanslari úr röðum SPD, sagði við blaðið Tagesspiegel að hann stæði gegn því að í þriðja skiptið í röð yrði gengið til samstarfs við CDU/CSU.

„Ég er þess fullviss að ekki sé réttlætanlegt að mynda fimmtu stóru samsteypustjórnina,“ sagði Scholz í samtali sem birtist í blaðinu fyrir afsögn Nahles. „Þrjár stórar samsteypustjórnir í röð yrðu ekki til neins góðs fyrir lýðræði í Þýskalandi.“

Kjörtímabilið verður hálfnað í september 2019. Sumir spá því að þá taki SPD ákvörðun um að nóg sé komið af svo góðu.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …