Home / Fréttir / Upphaf COVID-19: rannsóknastofa eða matvælamarkaður í Wuhan?

Upphaf COVID-19: rannsóknastofa eða matvælamarkaður í Wuhan?

Í þessari byggingu er leðurblöku-rannsóknastofan í Wuhan.
Í þessari byggingu er leðurblöku-rannsóknastofan í Wuhan.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði laugardaginn 18. apríl að það kynni að hafa afleiðingar fyrir Kínverja ef þeir hefðu vitað um hættuna en ekki gripið nógu fljótt til aðgerða gegn COVID-19 og haldið aftur af faraldrinum sem síðan hefur borist til allra heimshorna. Hefðu Kínverjar gert mistök væri um mistök að ræða, annað gilti ef kínversk yfirvöld hefðu vitað en ekkert aðhafst.

Þá sagði forsetinn að hvort sem um mistök eða vísvitandi aðgerðaleysi hefði verið að ræða hefði kínverska stjórnin átt að leyfa Bandaríkjamönnum að fara á vettvang í Wuhan, upphafsborg faraldursins, til að kynna sér allar hliðar málsins.

„Við báðum snemma um að fá að fara á vettvang. Og þeir vildu ekki fá okkur. Ég held þeir hafi vitað að þetta væri eitthvað slæmt og þeir skömmuðust sín,“ sagði forsetinn. „Þeir sögðust ætla að rannsaka málið sjálfir. Við skulum sjá hvað gerist með rannsókn þeirra. En við erum einnig með okkar rannsókn.“

Bandaríkjastjórn útilokar ekki að COVID-19 eigi fyrir slysni upphaf sitt í rannsóknastofu í Wuhan, þar eru stundaðar rannsóknir á leðurblökum.

Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sem gefið hefur til kynna að bandarískir hermenn kunni að hafa borið veiruna til Kína, hafnar bandarískum fjölmiðlafrásögnum um málið og segir að ekki nein „vísindaleg rök“ séu að því sem segir í bandarískum fjölmiðlum.

Fréttaritari franska blaðsins í Le Figaro í Kína segir að kínversk stjórnvöld hleypi engum að rannsóknastofunni í Wuhan. Samhliða þessu láti kínverskir ráðamenn eins og þeir vilji „samvinnu“ á alþjóðavettvangi en haldi upplýsingum fyrir sig. Frá byrjun apríl verði að leggja allar vísindagreinar um upphaf veirunnar fyrir ritskoðara Kínastjórnar (kommúnistaflokksins). Ekkert sé birt nema með þeirra samþykki.

Veiru-rannsóknastofan sem sérhæfir sig í leðurblökum er í um 30 km fjarlægð frá markaði Wuhan sem einnig er talinn hugsanlegur upphafsstaður veirunnar.

Sé litið á vefsíðu rannsóknastofunnar segir að verið sé að „uppfæra“ hana.

Athygli hefur beinst að Huang Yanling, sem útskrifaðist frá rannsóknastofunni árið 2015. Orðrómur er um að hún sé fyrsta fórnarlamb. Mynd af Huang var á vefsíðu rannsóknastofunnar en í upphafi sagði talsmaður hennar að Huang hefði aldrei starfað þar. Síðan var gefin sú skýring að Huang hefði starfað í öðru héraði en Hubei. Hún hefði aldrei komið til Wuhan, hún hefði ekki smitast og væri við góða heilsu. Huang Yanling hefur þó hvergi sést opinberlega og segir franski blaðamaðurinn að það ýti undir grunsemdir í „landi þar sem fjölmiðlar eru í ströngum ritstkoðunarfjötrum“.

Kínverska utanríkisþjónustan hefur fyrirmæli um að ýta undir þá skoðun að upphaf COVID-19-faraldursins sé ekki endilega að finna í Kína. Sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, sagði í grein í Fréttablaðinu miðvikudaginn 15. aprí 2020:

„Kína var fyrsta landið til að tilkynna smit af völdum „Nýju kórónaveirunnar“ til WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, þegar útbreiðslan hófst í Wuhan borg, en það þýðir samt ekki endilega að uppruni vírussins hafi verið í Wuhan. Leitin að uppruna vírussins ætti að vera í höndum til þess bærra vísindamanna og heilbrigðisstarfsmanna. Engin niðurstaða er enn komin í leitina að uppruna veirunnar, en það mun vonandi koma í ljós með tímanum.“

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …