Home / Fréttir / Unnið er að endurmati á hernaðarlegu vægi Íslands og nágrennis

Unnið er að endurmati á hernaðarlegu vægi Íslands og nágrennis

Map-Iceland-GIUK-Gap-300x278

 

 

Þriðja og síðasta málþing Varðbergs,  NEXUS og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands  í tilefni af 10 ára brottför varnarliðsins var í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins fimmtudaginn 17. nóvember. Málþingið var fjölsótt en þar kynntu fjórir ræðumenn sjónarmið sín varðandi endurmat á hernaðarlegu mikilvægi Íslands og nágrennis.

Tveir ræðumannanna starfa hjá NATO: Simon Hardern flotaforingi og James Henry Bergeron, aðalstjórnmálaráðgjafi við flotastjórn NATO. Hardern hefur undanfarin ár verið í lykilstarfi sem einskonar framkvæmdastjóri hermálanefndar NATO. Hann tekur í desember við skipulagsstörfum við herstjórn NATO í Brunssum í Hollandi, herstjórn sem sinnir málefnum Norður-Evrópu en hefur ekki áður haft flotaforingja meðal æðstu yfirmanna sinna.

Af erindum þeirra Harderns og Bergerons er ljóst að undanfarin misseri hefur orðið gjörbreyting á afstöðu innan NATO til þróunar mála á Norður-Atlantshafi og þar með varðandi öryggi Íslands. Bregeron sagði að árið 2004 þegar hann kom að áætlanagerð fyrir flota Bandaríkjanna hafi sér verið sagt að þar á bæ litu menn ekki á Norður-Atlantshaf sem strategic space, það er svæði sem skipti máli við gerð slíkra áætlana. Þar væri ekki ástæða til að hafa áhyggjur af neinum hernaðarlegum umsvifum.

Nú er afstaðan til Norður-Atlantshafs önnur og ný stefna NATO vegna þess er í mótun.

Rolf Tamnes, prófessor við Rannsóknarstofnun norska hersins í varnarmálum, var formaður óháðrar rannsóknarnefndar sem vann skýrslu um öryggismál Noregs. Ríkisstjórn Noregs hefur haft hana til hliðsjónar við gerð nýrrar áætlunar til nokkurra ára um varnir Noregs.

Hann lýsti þróun hernaðarmála á norðurslóðum og birti kort sem sýndi að varnarlína Rússa eða virki þeirra í norðri umhverfis kjarnorkuflota þeirra á Kóla-skaga nær allt að Íslandi. Dró hann einnig upp mynd af þríhyrningi sem yrði að mynda til að til kafbátaeftirlits í nágrenni Íslands frá flugvöllum í Noregi, Skotlandi og Íslandi.

Í pallborðsumræðum vakti Tamnes máls á nauðsyn þess að Íslendingar leggðu sitt af mörkum til mótunar norðurstefnu í öryggismálum innan NATO. Þetta krefðist, þekkingar, mannafla, tíma og fjármuna. Beindi hann spurningu um hvernig Íslendingar ætluðu að standa að þessu til málþingsins.

Björn Bjarnason, stjórnandi pallborðsumræðnanna, sagði að hér á landi hefðu öryggismál ekki verið áberandi í almennum umræðum eða í stjórnmálum undanfarin ár. Mætti meðal annars rekja það til þess sem fram hefði komið á málþinginu um að þetta svæði heimsins hefði ekki verið talið strategic space. Áður fyrr hefði öryggis- og varnarmál borið hátt í stjórnmálaumræðum og stjórnmálamenn, blaðamenn og aðrir orðið að fylgjast náið með á þeim vettvangi. Þetta hefði breyst og Íslendingar yrðu að taka sig á í þessum efnum og leggja sig eftir þekkingu og mati á nýrri stöðu og örum breytingum. Tilgangur málþingsins væri meðal annars að stuðla að því.

Magnus Nordenman er deildarstjóri Transatlantic Security Initiative við Brent Scowcroft Cener in International Security hjá Atlantic Council í Washington. Atlantic Council hugveitan nýtur trausts og virðingar út fyrir Bandaríkin og nýlega var til dæmis opnuð svæðisskrifstofa hennar í Stokkhólmi. Nordenman hefur stundað rannsóknir á breytingum á flotastyrk á Norður-Atlantshafi og dró upp mynd sem sýnir að þar er að verða veruleg breyting vegna aukinna umsvifa Rússa. Hann taldi óvarlegt að draga ákveðna ályktun af því hvað fyrir þeim vekti með aðgerðum sínum, einkum á tímum þegar efnahagur þeirra versnaði stöðugt. Vissulega mætti ímynda sér að við slíkar aðstæður gripi örvæntingarfullur leiðtogi til örþrifaráða til að þjappa þjóðinni á bak við, eins og með því að hrifsa undir sig land við Eystrasalt.

Nordenman sagði að í Washington fylgdist aðeins fámennur hópur manna með og hefði áhuga á öryggismálum í norðurhluta Evrópu. Samkeppni um athygli væri mikil í borginni og mikilvægt væri að Íslendingar og aðrir létu ekki undir höfuð leggjast að kynna hagsmuni sína og málstað.

Innan tíðar verður upptaka af málþinginu í heild birt hér á vardberg.is

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …