Home / Fréttir / Unnið að því að kortleggja allan hafsbotn jarðar

Unnið að því að kortleggja allan hafsbotn jarðar

pacific_bathy_image

Unnið er að framkvæmd áforma um að kortleggja allan hafsbotn jarðar fyrir árið 2030 þrátt fyrir tafir vegna COVID-19-faraldursins. Nú hefur um fimmtungur botnsins verið mældur og skráður.

Vísindamenn segja að minna sé vitað um staðfræði á hafsbotni en á yfirborði Mars, Merkúríuss eða Venus. Með því að mæla dýpi og lögun hafsbotnsins og kortleggja hann aukist skilningur á áhrifum úthafanna á loftslag jarðar.

Þar sem efnahagsleg nýting hafanna aukist á komandi árum sé þessi vitneskja einnig nauðsynleg til að efla þekkingu á vistkerfi hafsins og lífi í hafinu sem nýtist til matvælaöflunar þegar fram líða stundir.

Verkefnið ber enska heitið Seabed 2030 og undir merkjum þess á að safna öllum dýptargögnum til að mynda alhliða kort. Forráðamenn verkefnisins sögðu sunnudaginn 21. júní að kortlagt svæði hefði stækkað úr 15% í 19% í fyrra. Svæðið var aðeins 6% af hafsbotninum þegar ráðist var í verkefnið árið 2017.

Stjórnvöld, fræðimenn og fyrirtæki, s.s. skipafélög, leggja til gögn við sjómælingarnar. Þeim er safnað af sérfræðingum í svæðisbundnum skrifstofum víða um heim og er kostnaður við verkefnið talinn milli þriggja og fimm milljarða dollara.

Enn á eftir að kortleggja um 293 milljón ferkílómetra af hafsbotni jarðar.

Um er að ræða samstarfsverkefni milli japönsku Nippon-stofnunarinnar og GEBCO, félagsskap sérfræðinga sem þegar hafa tekið þátt í kortleggja hafsbotninn.

 

Heimild: Reuters

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …