Meirihluti öfgamannanna sem stóðu að hryðjuverkunum í París 13. nóvember 2015 komst til Evrópu í skjóli farandfólks er haft eftir ungverskum öryggislögreglumönnum á vefsíðunni Telegraph sunnudaginn 2. október. Sjö árásarmannanna sem drápu 130 manns og særðu fleiri en 360 laumuðu sér sem farandmenn yfir ungversku landamærin.
Talið er að alls hafi 10 öfgamenn starfað náið saman að skipulagningu og framkvæmd ódæðisverkanna. Hluti af hópi sömu manna hafi átt aðild að hryðjuverkunum í Brussel í mars þar sem 32 týndu lífi.
Miðstöð gagnhryðjuverka í Ungverjalandi segir að hópur öfgamannanna hafi komið á fót „birgða- og stjórnstöð“ í Ungverjalandi sumarið 2015 og tekið að nota svonefnda Balkan-leið í austurhluta Evrópu fyrir flutning á þjálfuðum vígamönnum frá Sýrlandi til Evrópu.
Á vefsíðunni segir að miðlun þessara upplýsinga sé liður í mikill áróðursherferð í Ungverjalandi vegna þjóðaratkvæðagreiðslu þar sunnudaginn 2. október um hvort samþykkja eigi ESB-reglur sem skylda ESB-ríkin til að taka við ákveðnum fjölda farand- og flóttafólks. Talið er að reglunum verði hafnað en samkvæmt þeim ættu Ungverjar að taka á móti 1.924 hælisleitendum.
Zsolt Bodnar, varaforstjóri ungversku gagnhryðjuverkamiðstöðvarinnar, sagði við The Sunday Times að þeir hefðu komist að niðurstöðu sinni eftir nákvæma rannsókn á farsímum öfgamannanna.
Hann segir að Abdelhamid Abaaoud, belgíski hryðjuverkamaðurinn, ættaður frá Marokkó, sem féll eftir hryðjuverkun í París hafi sent undanfara til að „kynna sér“ sér flóttamannaleiðina í júlí 2015. Undanfarinn, Bilal C., notaði síðan samfélagsmiðla eins og Facebook og Whatsapp til að miðla upplýsingum til Ahaaouds og samverkamanna hans.
Margir hryðjuverkamannanna fæddust í Evrópu en fóru til Sýrlands til að berjast með Daesh (Ríki íslams) eftir að þeir aðhylltust öfgahyggjuna. Þótt nöfn þessara manna hefðu verið í mörgum gagnagrunnum yfir menn grunaða í tengslum við hryðjuverkamenn nýttu þeir sér fjöldaflóttann til Evrópu til að laumast þangað frá Sýrlandi.
Sumir þóttust vera sýrlenskir flóttamenn og báru fölsk sýrlensk vegabréf auk þess sem þeir höfðu hlotið þjálfun til að stunda leynileg samskipti. Salah Abdeslam, sem stóð að hryðjuverkinu í París og var handtekinn í Belgíu, bíður nú dóms. Talið er að hann hafi farið fjórum sinnum til Ungverjalands í ágúst og október 2015 þangað sem hann sótti aðra hryðjuverkamenn sem komu að blóðbaðinu bæði í Brussel og París