
ESB-þingið samþykkti miðvikudaginn 12. september að Ungverjum skyldi refsað fyrir að brjóta gegn gildum ESB og lögum og rétti. Utanríkisráðuneyti Póllands sendi frá sér tilkynningu sama dag um að fulltrúi Póllands mundi greiða atkvæði gegn slíkum refsiaðgerðum hvarvetna í ESB. Innan ráðherraráðs ESB verða fulltrúar allra ríkja að samþykkja refsiaðgerðir, annars verður ekki gripið til þeirra.
„Sérhvert ESB-ríki hefur fullveldisrétt til að hrinda í framkvæmd innri umbótum sem það telur réttar,“ segir í tilkynningunni.
Í fyrra hóf framkvæmdastjórn ESB samskonar refsiferli gegn Pólverjum sem sakaðir eru um sambærileg brot og Ungverjar.
Atbeini framkvæmdastjórnarinnar leiðir af sér að bæði í Búdapest og Varsjá grandskoða rannsakendur á vegum ESB ýmsa þætti laga og stjórnsýslu, þar á meðal breytingar á dómskerfinu, frelsi fjölmiðla, borgaraleg réttindi og réttindi minnihlutahópa.
Stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi hafa nú heitið gagnkvæmum stuðningi til að fella allar tillögur sem miða að því að gripið verði til ESB-refsiaðgerða gegn þeim, til dæmis tillögu um að svipta fulltrúa ríkjanna atkvæðisrétti í ESB-ráðherraráðinu.
Andrzej Duda, forseti Póllands, fór hörðum orðum um ESB í ræðu sem hann flutti í bænum Lezajsk í suðaustur Póllandi þriðjudaginn 11. september.
Hann lýsti ESB sem „ímynduðu samfélagi“ sem væri til lítils gagns fyrir Pólverja. ESB ætti að láta Pólverja „í friði og leyfa okkur að taka til í Póllandi vegna það er mikilvægasta verkefnið“ sagði hann og vísaði til refsiferils ESB.
„Auðvitað höfum við rétt til að bera væntingar í garð Evrópu – einkum þeirra í Evrópu sem yfirgáfu okkur og gerðu að fórnarlömbum Rússa árið 1945 – umfram allt annað höfum við rétt til að fara með stjórn eigin mála hér í landi okkar og ákveða hvernig okkar Pólland á að vera,“ sagði forsetinn.
Stjórnarandstæðingar í Póllandi gagnrýna þessa afstöðu forsetans harðlega. Aleksander Kwasniewski, fyrrv. forseti Póllands, sagði í opnu bréfi miðvikudaginn 12. september að orð Duda væru „óábyrg“ og þeim væri ætlað að „skaða einingu Evrópuþjóða“.
„Sé um stundar-tilfinningar að ræða hvet ég til betri ígrundunar. Sé þetta djúpstæð stefna segi ég þetta ganga gegn þjóðarhagsmunum Pólverja,“ sagði forsetinn fyrrverandi.
Með refsiaðgerðum gegn Ungverjum tekur ESB þá áhættu að færa þá enn nær Rússum. Peter Szijjarto, talsmaður ungversku stjórnarinnar í utanríkismálum, sagði miðvikudaginn 12. september að Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, ætlaði að hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu þriðjudaginn 18. september til að ræða kaup á orku og fjárfestingar í innviðum.
„Langtíma gassamningurinn rennur út í lok 2020 eða þegar í lok 2019, við viljum vita um afstöðu Rússa til þessa,“ sagði Peter Szijjarto.
„Við verðum að finna leið til að lágmarka tjón okkar… sem leitt hefur af þvingunaraðgerðunum undanfarin ár,“ sagði hann og vísaði til refsiaðgerða ESB gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.