Home / Fréttir / Ungverjaland: Orban fer sínu fram gegn ESB-kvótum í umboði þjóðarinnar

Ungverjaland: Orban fer sínu fram gegn ESB-kvótum í umboði þjóðarinnar

Viktor Orban greiðir atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Viktor Orban greiðir atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Ungverska ríkisstjórnin ætlar að hafna stefnu ESB sem skylda ESB-ríki til að taka á móti ákveðnum fjölda hælisleitenda þótt niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Ungverjalandi sunnudaginn 2. október sé ekki bindandi vegna dræmrar þátttöku í henni. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði lýðræðislegu niðurstöðuna ótvíræða og eftir henni yrði farið.

Þar sem ekki tóku nema 40.1% atkvæðisbærra manna þátt í atkvæðagreiðslunni var hún lýst ógild en 50% þátttaka er skilyrði fyrir að niðurstaðan sé gild og bindandi. Af þeim sem greiddu atkvæði studdu 98,3% stefnu Orbans í útlendingamálum.

ESB-stefnan um kvóta farand- og flóttafólks fyrir hvert ESB-ríki varð til vegna vandræða Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem opnaði land sitt fyrir aðkomufólkinu fyrir einu ári. Tillaga Merkel hlaut stuðning flestra ESB-ríkjanna á árinu 2015 en í henni felst að minnka þrýsting á Ítali og Grikki sem sitja uppi með flesta ólöglega aðkomumenn. Framkvæmd tillögunnar hefur verið hæg, til þessa hefur aðeins 5.651 hælisleitandi verið sendur frá þessum löndum af 160.000 sem eru undir í fyrstu lotu. Ríki í Austur- og Mið-Evrópu leggjast einkum gegn tillögunni.

Rúmlega 400.000 aðkomumenn fóru um Ungverjaland til Norður-Evrópu á árinu 2015 áður en ungverska stjórnin lokaði suðurlandamærum sínum með gaddavírsgirðingu í september 2015.

Talsmenn ESB sögðu í fyrri viku að markmiðið væri að senda um helming fólksins á Ítalíu og í Grikklandi þaðan fyrir árslok 2017. Dregið hefur úr straumi fólks frá Tyrklandi um Grikkland eftir að samið var við tyrknesk yfirvöld í þá veru í mars 2016.

Orban sagði að hann hefði í þjóðaratkvæðagreiðslunni fengið „einstakt umboð til að stöðva atlöguna frá Brussel gegn fullveldi þjóðarinnar“. Innan skamms tíma mundi hann leggja fram tillögu um stjórnarskrárbreytingu sem „endurspeglaði vilja þjóðarinnar í anda þjóðaratkvæðagreiðslunnar“.

Orban sagði í ungverska þinginu í Búdapest: „Lýðræðissaga Ungverjalands geymir ekkert dæmi um að flokkur eða bandalag flokka hafi nokkru sinni fengið slíkt umboð. Við látum engan leika sér með 3,3 milljónir manna eða að gert sé lítið úr skoðunum þeirra.“

Á auglýsingaskiltum og í sjónvarpsauglýsingum stjórnvalda voru aðkomumenn tengdir við „hryðjuverk“ og glæpi. Straumi þeirra til landsins var líkt við „eitur“. Orban hefur skipað sér í fremstu röð þeirra innan ESB sem leggjast gegn því að flóttamenn fái þar hæli.

Ungverska stjórnarandstaðan, félagasamtök, stofnanir og aðgerðasinnar hvöttu almenning til að sitja heima í stað þess að greiða atkvæði, þá var einnig hvatt til þess að eyðileggja atkvæðaseðla. Ógildir atkvæðaseðlar voru rúmlega 230.000 sem er einsdæmi í ungverskri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …