Home / Fréttir / Ungir Moskvubúar leggja á flótta undan hruni og ofríki

Ungir Moskvubúar leggja á flótta undan hruni og ofríki

Í Moskvu hefur lífsstíllinn ekki aðeins breyst vegna þess að McDonald‘s hefur verið lokað og ekki er unnt að fá Coca Cola eða versla í vestrænum tískuverslunum á boð við Zöru heldur hefur brostið á flótti meðal ungs fólks sem sættir sig ekki við að búa í landi sem einn viðmælandi The Telegraph sagði að breyttist í „stóra Norður-Kóreu“ yrði lokað fyrir internetið.

Ungt fólk leitar einkum suður á bóginn til Tyrklands, Georgíu eða Armeníu. Það sér engin tækifæri til að tryggja sér viðunandi laun eða lífskjör í Moskvu nema ánetjast spillingu eða tengjast beint glæpastarfsemi af einhverju tagi.

Embættismenn í Georgíu segja að 20.000 til 25.000 Rússar hafi nú þegar flutt til landsins eftir að stríðið hófst í Úkraínu. Járnbrautalestir til Finnlands eru yfirbókaðar og straumur fólks liggur einnig til Armeníu og Kazakhstan. Til Armeníu er talið að um 6.000 mann komi dag hvern frá Rússlandi og Úkraínu.

Margir leggja á flótta af ótta við að Pútin-stjórnin ætli að setja herlög í Rússlandi til að hindra mótmæli á götum úti og loka landamærunum til að binda enda á fólksflóttann. Fólki er nú þegar bannað fara með meira en 10.000 dollara í gjaldeyri frá Rússlandi. Ungt fólk óttast efnahagshrun, aðför að borgaralegu frelsi og upptöku stjórnarhátta á borð við þá sem ríktu á myrkustu dögum Sovétstjórnarinnar.

Brotthvarf ungs fólks, einkum vel menntaðs hæfileikafólks, eykur enn á efnahags- og þjóðfélagsvandann í Rússlandi. Efnahagslífið verður einhæfara og háðara hrávöru þegar frumkvöðlar á sviði nýsköpunar hverfa annað.

Í The Telegraph segir að fyrir innrásina í Úkraínu hafi þess gætt víða meðal ungra Rússa að þeir vildu leita fyrir sér utan lands. Efnahagslífið hafi staðnað eftir árið 2014.

Í fyrra sögðust 48% á aldrinum 18 til 24 ára að þeir vildu flytjast til varanlegrar búsetu erlendis. Meðal Rússa í heild var hlutfallið um 20% að því er fram kom í könnun sjálfstæða fyrirtækisins Levada Centre. Þar kom fram að um 10% Rússa hefðu þegar gert einhverjar ráðstafanir í því skyni að flytjast á brott.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …