Danski herinn fær 1,5 milljarð DKR til að auka viðveru sína á norðurslóðum (Arktis) og á Norður-Atlantshafi. Þetta er hluti samkomulags sex flokka (Socialdemokratiet, Venstre, Konservative, Liberal Alliance, Radikale Venstre og Dansk Folkeparti) á danska þinginu
Danskir þingmenn sömdu árið 2018 um að auka útgjöld til varnarmála um alls 4,8 milljarða DKR til ársins 2023. Árið 2019 sömdu flokkarnir um að auka útgjöldin um 1,5 milljarð DKR til ársins 2023 og verja því fé einkum til aukins eftirlits á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Nú hefur verið samið um hvernig þessu fé skuli varið.
Grænlenska útvarpið KNR segir að í samkomulaginu felist meðal annars að framvegis geti ungir Grænlendingar gegnt herskyldu á Grænlandi samhliða því sem umsvif hersins aukist á Grænlandi og á hafinu við landið.
Danska varnarmálaráðuneytið hefur samið um þessa nýskipan við Naalakkersuisut, stjórn Grænlands í því skyni að fjölga tækifærum fyrir Grænlendinga til að eiga aðild að vörnum lands síns. Þá eiga Grænlendingar sem gegna herskyldu að sinna björgunar- og eftirlitsverkefnum.
Verja skal helmingi aukafjárveitingarinnar, 750 milljónum DKR til að kaupa og reka tvo dróna sem verða notaðir til eftirlits yfir Grænlandi. Nú er unnið að athugun á því hvaða dróna-tegundir komi helst til greina.