
UNESCO, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, sendi frá sér tilkynningu föstudaginn 13. október um að Audrey Azoulay (45 ára), fyrrverandi menningarmálaráðherra Frakklands, hefði verið kjörin næsti forstjóri stofnunarinnar á fundi framkvæmdaráðs hennar. Tillaga ráðsins verður lögð fyrir allsherjarþing UNESCO í París í næsta mánuði.
Azoulay var í ein af þremur á lokalista sem var lagður fyrir framkvæmdaráð UNESCO en upphaflega voru sjö sem sóttust eftir embættinu. Fyrir utan Azaoulay voru Hamad bin Abdulaziz al-Kawari, fyrrv. menningarmálaráðherra Qatar, og Moushira Khattab, fyrrv. ráðherra í Egyptalandi, á lokalistanum.
Frakkar buðu Azoulay fram fimmtudaginn 12. október með þeim orðum að hún gæti „brúað stjórnmálaágreining og helgað sig eingöngu höfuðverkefnum UNESCO“.
Egypski frambjóðandinn datt úr leik eftir fyrstu kosninguna föstudaginn 13. október. Við svo búið var óskað eftir opinberri athugun vegna ásakana um atkvæðakaup.
Áður en ráðið kom saman á föstudeginum hafði þegar verið kosið fjórum sinnum á fundum þess. Svæðisbundin sjónarmið settu svip á afgreiðslu málsins þar sem fulltrúar Arabaríkjanna sögðu tímabært að einhver úr þeirra hópi yrði í fyrsta sinn í sögunni forstjóri UNESCO.
Arabísku fulltrúarnir voru hins vegar ekki á einu máli um hver það ætti að vera. Það voru flokkadrættir milli stuðningsmanna frambjóðanda Qatars og Egyptalands en Sádar studdu Egyptann. Þeir hafa síðan í júní viljað einangra Qatar og sakað stjórnendur landsins um að standa að baki öfgafullum íslamistum og vera í tengslum við Írani.
Af hálfu Qatars var barist hart fyrir frambjóðanda landsins meðal annars með auknum fjárframlögum til UNESCO undanfarin ár. Frambjóðandi Qatars sætti hins vegar ásökunum um gyðingahatur; hann hefði sem menningarmálaráðherra ekki aðhafst neitt þegar rit til ófrægingar gyðingum voru kynnt á bókmenntahátíð í Doha.