Home / Fréttir / Undrun og reiði vegna trúgirni Trumps gagnvart Pútín

Undrun og reiði vegna trúgirni Trumps gagnvart Pútín

 

Michael McFaul.
Michael McFaul.

Michael McFaul er forstjóri Freeman Spogli Institute for International Studies í Bandaríkjunum og Hoover-félagi við Stanford-háskóla. Hann var 2012 til 2104 sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu og hefur nýlega sent frá sér bókina: From Cold War to Hot Peace: An American Ambassador in Putin’s Russia.

Michael McFaul er gestadálkahöfundur í The Washington Post. Hér verður vitnað í grein sem hann birti í blaðinu föstudaginn 27. júlí. Þar segir hann frá reynslu sinni eftir fund Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Vladimírs Putíns í Helsinki mánudaginn 16. júlí þar sem vikið var að honum sjálfum.

McFaul var í Helsinki og á blaðamannafundi forsetanna sem sérfræðingur á vegum NBC­-sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku.

Eftir að McFaul varð sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu fyrir forsetakosningarnar í Rússlandi árið 2012 var hafin sú lygaherferð gegn honum að hann hefði verið gerður út af Barack Obama Bandaríkjaforseta til að grafa undan framboði Pútíns með fjárstuðningi við andstæðinga hans og ýta undir byltingu auk þess sem hann vildi að Pútin hlyti sömu örlög og serbneski einræðisseggurinn Slobodan Milosevic, yrði hrakinn úr embætti og fangelsaður, auk þess sem hann væri barnaníðingur. Í bók sinni lýsir McFaul þessari ömurlegu reynslu sinni. Obama hafi tekið til varna fyrir sig en hann hafi verið þeirri stund fegnastur þegar hann hvarf úr utanríkisþjónustunni og sneri sér aftur að háskólakennslu.

Pútín hafi hins vegar gert nýja atlögu að sér á tveggja tíma einkafundi sínum með Trump í Helsinki. Pútín gerði Trump tilboð um að bandarískir rannsóknarlögreglumenn fengju að yfirheyra 12 rússneska njósnara sem Bandaríkjamenn hafa ákært fyrir afskipti af forsetakosningabaráttunni 2016 ef rússneskir lögreglumenn fengju að yfirheyra sama fjölda bandarískra njósnara sem að mati Rússa hefðu gerst brotlegir í Rússlandi. Í þessu samhengi bjó Pútín til þá sögu á sameiginlega blaðamannafundinum með Trump að breski ríkisborgarinn Bill Browder, fæddur í Bandaríkjunum, hefði stundað peningaþvætti og flutt fé frá Rússlandi sem hann lét síðan renna í kosningasjóð Hillary Clinton. Þetta var uppspuni frá rótum en Trump kallaði ósk Pútíns um að fá Browder til yfirheyrslu gegn aðgangi bandarískra rannsakenda  að 12 rússneskum njósnurum „ótrúlegt tilboð“ á blaðamannafundinum.

McFaul sagðist ekki hafa trúað sínum eigin eyrum þegar hann hlustaði á þennan spuna Pútíns. Þarna gæti þessi fyrrverandi KGB-foringi staðið við hlið Trumps og farið með lygar frammi fyrir sjónvarpsvélunum um að Rússar hefðu ekki skipt sér af bandarísku kosningunum. Í öðru lagi var uppspuni Pútíns móðgandi, að sjálfsögðu hefðu engir bandarískir leyniþjónustumenn lagt einhverju peningaþvætti lið. Í þriðja lagi beitti Pútín þarna gamalkunnri aðferð sinni, að bera saman ólíka hluti eins og til dæmis innlimun Úkraínu og sjálfstæði Kósóvó. Í Helsinki greip Pútín til þess einfalda ráðs að búa til sambærilegt afbrot og krafðist aðgangs að afbrotamanninum.

McFaul taldi í fyrstu að illmennska hefði ekki ráðið viðbrögðum Trumps þegar hann sagði þetta „ótrúlegt tilboð“ heldur væri um að ræða staðfestingu á áralalangri einfeldni hans þegar Pútín ætti í hlut, skilningsleysi hans á aðferðum Pútíns

Í flugvélinni frá Helsinki til Washington tóku blaðamenn að spyrja McFaul hvað hann segði um yfirlýsingu talsmanns æðsta saksóknara Rússlands sem fæli í sér ásökun um að McFaul væri sjálfur til rannsóknar fyrir brot á rússneskum lögum. Hann væri meðal bandarískra embættismanna undir grun um að hafa hjálpað Browder við brot hans.

Í flugferðinni breytist undrunin yfir framhleypni Pútíns í reiði hjá McFaul í garð Trumps. Hvernig í ósköpunum honum hefði dottið í hug að kalla það „ótrúlegt tilboð“ þegar Pútín laug að honum til að ófrægja þá sem hann taldi að hefðu gert á hlut sinn. Bandaríkjaforseti gæti ekki skapað það hættulega fordæmi að leyfa erlendri ríkisstjórn, og það óvinveittri ríkisstjórn, að yfirheyra eða hóta að ákæra bandaríska embættismenn vegna starfa sem þeir unnu í þjónustu bandarísku ríkisstjórnarinnar. McFaul taldi víst að þessu yrði hafnað af mönnum Trumps á opinberum vettvangi við komuna til Bandaríkjanna.

Þetta fór þó í handaskolum í fyrstu atrennu. Nokkrum dögum eftir Helsinki-fundinn sagði Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Trumps, að innan Hvíta hússins veltu menn enn fyrir sér tillögu Pútíns um gagnkvæmar yfirheyrslur á grunuðum afbrotamönnum. Vegna þessara orða greip öldungadeild Bandaríkjaþings til sinna ráða og samþykkti með 98 samhljóða atkvæðum að gætt skyldi hagsmuna McFauls og annarra Bandaríkjamanna á lista Pútíns. Heather Nauert, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, hafnaði tillögu Pútíns og sagði hana „fráleita“ en tók jafnframt fram að hún talaði ekki fyrir hönd forsetaembættisins.

Í þriðju tilraun til að skýra stefnu Bandaríkjanna gagnvart tilboði Pútíns sagði Sanders að Trump hefði hafnað tilboðinu en kynni engu að síður að meta „einlægnina“ í boði rússneska forsetans. McFaul lýsir undrun yfir að Trump hafi tekið til sterkari varna fyrir bandaríska borgara gegn erlendum einræðisherra. Hér sé ekki um flokksmál að ræða heldur málefni Bandaríkjanna sjálfra. Næst segist McFaul þurfa aðstoð bandarískra stjórnvalda gefi Pútín út handtökuskipun á hendur sér og sendi hana til alþjóðalögreglunnar Interpol. Hann kunni að verða handtekinn í þriðja landi og framseldur til Rússlands. Ólíklegt sé þó að Pútín grípi til þessa ráðs gagnvart fyrrverandi bandarískum sendiherra vegna glæps sem sé uppsuni frá rótum. Þó sé aldrei að vita, allur sé varinn góður og með öllum ráðum verði að útiloka að til handtöku komi. Til þess þurfi hann aðstoð ríkisstjórnar lands síns. Þá segir McFaul orðrétt þegar hann rökstyður nauðsyn slíkrar aðstoðar:

„Vegna þess að ólíkleg atvik verða sífellt algengari þar sem Rússar eiga í hlut: ólögmæt handtaka og morð, í fangelsi, á Sergei Magnitskjí [lögfræðingi Bills Browders sjá bókina Eftirlýstur]; innlimun Krímskaga; árásin á Malaysia Airlines flug 17, farþegaþotu á flugi yfir Úkraínu, sem varð næstum 300 manns að bana; íhlutunin í Sýrlandi til að styðja við bakið á morðóðum einræðisherra; launmorðið á fyrrverandi fyrsta vara-forsætisráðherra Rússlands, Boris Nemstov, aðeins nokkur skref frá Kreml; ósvífin árás Rússa á fullveldi Bandaríkjanna í forsetakosningunum 2016; beiting sovésks efnavopns gegn Skripal-feðginunum á bresku landi; lyga samsærissaga á mikilvægum leiðtogafundi um hvernig breskur fésýslumaður hafi bruggað launráð með bandarískum leyniþjónustumönnum, starfsmönnum á Bandaríkjaþingi og fyrrverandi utanríkisþjónustumönnum (bæði í stjórnartíð George W. Bush og Obama) til að stela rússnesku reiðufé og veita Clinton aðstoð í kosningabaráttunni.“

Grein sinni lýkur McFaul með því að segja að vegna afskipta og óvildar Pútíns geti hann ekki lengur ræktað fræðileg tengsl við Rússa í heimalandi þeirra. Hann hafi frá 1983 ferðast um Rússland og dvalist þar langdvölum. Nú sé það allt að baki.

Þá vonar hann að Trump, Mike Pompeo utanríkisráðherra, Jeff Sessions dómsmálaráðherra og John Bolton þjóðaröryggisráðgjafi gæti skýrt og afdráttarlaust hagsmuna allra Bandaríkjamanna sem starfa í þjónustu lands síns erlendis og segi Rússum að ásakanir, svo að ekki sé talað handtökuskipanir fyrir milligöngu Interpol, á hendur fyrrverandi bandarískum embættismönnum vegna upploginna sakargifta verði mætt með nýjum refsiaðgerðum og gagnkvæmum ráðstöfunum.

Gerist þetta ekki segir McFaul að hann leiti til þingsins og fari þess á leit að það samþykki nýjar refsiaðgerðir og önnur úrræði til að neyða rússnesk yfirvöld til að falla frá hótunum um að handtaka bandaríska embættismenn. Láti Bandaríkjastjórn undir höfuð leggjast að vernda eigin borgara verði það skilið sem merki um veikleika og undanlátssemi í Moskvu (og hvarvetna). Slíkt merki verði ekki til þess að auðvelda Trump að ná markmiðum sínum í viðræðum við Rússa (eða nokkra aðra). Pútín og heimurinn allur fylgist með framvindunni.

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …