Home / Fréttir / Undirróður Rússa í evrópskum stjórnmálahreyfingum rannsakaður

Undirróður Rússa í evrópskum stjórnmálahreyfingum rannsakaður

James Clapper
James Clapper

Bandarískum leyni- og njósnastofnunum hefur verið falið að rannsaka hvernig rússnesk stjórnvöld hafa áhrif og hreiðra um sig innan stjórnmálaflokka og hreyfinga í Evrópu. Frá þessu er skýrt á bresku vefsíðunni The Telegraph mánudaginn 18. janúar. Bandaríkjaþing fól James Clapper, US Director of National Intelligence, það er yfirmanni allra bandarískra njósnastofnana, að taka saman skýrslu um leynilegan fjárstuðning Rússa við evrópska stjórnmálaflokka undanfarin áratug.

Í frásögninni á vefsíðunni segir að ósk Bandaríkjaþings sýni vaxandi áhyggjur ráðamanna í Washington yfir því að Kremlverjar ýti undir sundrungu í Evrópu til að grafa undan NATO, leggja stein í götu eldflaugavarna og knýja fram andstöðu við viðskiptaþvinganirnar sem komu til sögunnar eftir innlimun Krímskaga í Rússland.

Þá segir að fréttir um þetta hafi borist frá Washington um svipað leyti og háttsettir breskir embættismenn sögðu The Telegraph frá vaxandi ótta við að nýtt „kalt stríð“ hæfist í Evrópu vegna þess að afskiptasemi Rússa væri mun víðtækari og djúptækari en áður var talið.

„Þetta er í raun ekki annað en kalt stríð sem við sjáum,“ sagði heimildarmaður við The Telegraph. „Hvarvetna innan ESB sjáum við sláandi dæmi um tilraunir Rússa til að rjúfa net evrópskrar samstöðu í fjölda mikilvægra lykilmála.“

Í The Sunday Telegraph  kom fram 17. janúar að blaðamenn hefðu séð samantekt um „áhrifaaðgerðir“ Rússa þar sem segði að þær hefðu verið stundaðar í Frakklandi, Hollandi, Ungverjalandi fyrir utan Austurríki og Tékkland sem rússneskir útsendarar hafa skilgreint sem inngöngustað á Schengen-svæðið.

Við gerð bandarísku skýrslunnar munu leynisþjónustur kanna hvort rússneska öryggislögreglan fjármagni flokka og góðgerðarsamtök í því skyni að „grafa undan pólitískri samstöðu“, til að ala á andróðri gegn eldflaugavarnarkerfi NATO og vinna gegn viðleitni til að leita að öðrum seljendum orku en Rússum.

Embættismenn vildur ekki segja hvaða stjórnmálaflokkar yrðu rannsakaðir en talið er líklegt að það verði flokkar sem litið er á sem öfgaflokka til hægri eins og Jobbik í Ungverjalandi, Gyllt dögun í Grikklandi, Norðurbandalagið á Ítalíu og Þjóðfylkingin í Frakklandi en hún fékk 9 milljónir evra að láni frá rússneskum banka árið 2014.

Austurríki verður undir smásjánni. Á sínum tíma fór austurrískir þingmenn til Krím til að tala máli innlimunarsinna. Þá hefur komið í ljós að rússneskir njósnarar nota austurrísk skilríki til að villa á sér heimildir.

Hollendingar greiða í apríl þjóðaratkvæði um hvort fallast eigi á nánari tengsl og meiri aðstoð ESB við Úkraínu. Heimildarmenn segja að röksemdir þeirra sem unnið hafa að því að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðsluna „beri sterkan svip“ af alkunnum rússneskum áróðri.

Igor Sutjagin, Rússlands-sérfræðingur hugveitu breska hersins, Royal United Services Institute (RUSI), segir áróðursvél Rússa „mjög virka“ um þessar mundir. Rússar stundi nú það sem sérfræðingar kalla hybrid warfare, blendingsstríð, þar sem blandað er saman aðferðum úr venjulegum hernaði, aðferðum skæruliða og tölvuárásum. Hann sagði:

„Rússar berjast með leynd á gráu svæði – oft á löglegan hátt – til að komast hjá pólitísku bakslagi, markmiðið er hins vegar skýrt: að veikja baráttuvilja Vesturlanda, ýta undir efasemdir um NATO, ESB, Trident [kjarnorkukafbáta Breta] og efnahagsþvinganir.

Þetta er klókindalega leikið. Í samskiptum ríkja gilda óskráðar reglur og þær brjóta Rússar nú, um það er ekki að villast, þeir vita hins vegar að á Vesturlöndum geta stjórnvöld ekki snúist gegn þeim án þess að vega að eigin grunngildum málfrelsis.“

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …