Home / Fréttir / Undanhald Lukasjenskos – Stoltenberg kveður Merkel

Undanhald Lukasjenskos – Stoltenberg kveður Merkel

Jens Stoltenberg og Angela Merkel við kanslarahöllina í Berlín 19. nóvember 2021.

Stjórnvöld Hvíta-Rússlands segja farendur hafa yfirgefið búðir sínar næst pólsku landamærunum og fengið húsaskjól í nágrenninu. Þá hafi um 400 þeirra verið fluttir til baka til Íraks.

Hvítrússneskir landamæraverðir tilkynntu á samfélagsmiðlinum Telegram að frá og með fimmtudeginum 18. nóvember hefðu allar búðir farenda við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands verið tæmdar í samvinnu við þá sem þar voru og þeir hefðu sjálfir haldið til húsa í nágrenninu. Birtar voru myndir þessu til staðfestingar.

Pólskir landamæraverðir segja þessar fréttir frá Hvita-Rússlandi réttar.

Atburðarásin er talin sýna að Alexander Lukasjenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, vilji minnka spennuna í samskiptum sínum við stjórnendur ESB-ríkja og Bandaríkjanna.

Lukasjenko kann að telja hlut sinn hafa batnað gagnvart stjórnum ESB-landa, sem viðurkenna hann ekki sem réttkjörinn forseta, að Angela Merkel, fráfarandi Þýskalandskanslari, ræddi við hann í síma.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hitti Angelu Merkel á fundi í Berlín föstudaginn 19. nóvember. Á blaðamannafundi eftir samtal sitt við Merkel sagði Stoltenberg að með því að nota bágstatt fólk til að þrýsta á stjórnendur annarra landa sannaði Lukasjenko aðeins að hann væri kaldrifjaður og ómannúðlegur. Innan NATO væri fylgst náið með framvindu mála og þar stæðu ríki með bandalagsþjóðum sínum.

Þá sagði Jens Stoltenberg að á vegum NATO væri einnig fylgst náið „með miklum og óvenjulegum hersafnaði Rússa“ í nágrenni landamæra Úkraínu. Rússar yrðu greina frá því hvað fyrir þeim vekti með því að auka herafla sinn á þessum slóðum, þeir yrðu að rifa seglin og minnka spennu.

Angela Merkel hverfur innan tíðar úr kanslaraembættinu. Stoltenberg bar lof á hana á blaðamannafundinum. Hann hefði á öllum fundum sínum með henni dáðst mjög að hve hreint hún gengi til verks, leitaði lausna og stuðlaði að framgangi mála. Í þakklætisskyni færði hann Merkel albúm með myndum af NATO-ríkisoddvitafundunum 11 sem hún hefur setið sem Þýskalandskanslari.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …