Home / Fréttir / Umtalsverð aukning boðuð á flugeftirliti rússneska Norðurflotans

Umtalsverð aukning boðuð á flugeftirliti rússneska Norðurflotans

Herstöðin í Nagurskoje á Franz Josef landi
Herstöðin í Nagurskoje á Franz Josef landi

Eftirlitsflugvélar rússneska Norðurflotans fá stærra athafnasvæði á árinu 2018 en áður megi marka fréttatilkynningu flotans sem sagt er frá á vefsíðunni Barents Observer þriðjudaginn 2. janúar. Í flugflotanum eru rúmlega 70 vélar af gerðunum Tu-142 og Il-38. Þær eru sendar yfir Norður-Íshaf og verður eftirlitssvæði þeirra stækkað „umtalsvert“ í ár.

Í fréttatilkynningunni segir að stefnt sé að því að á árinu 2018 stækki flugmenn í vélum Norðurflotans eftirlitssvæði sitt „umtalsvert“ á Norður-Íshafi meðal annars með því að nota nýja íshafsflugvöllinn í Temp á Nýju-Síberíu-eyjum.

Unnið er að því að þrautþjálfa flugmennina og áhafnir flugvélanna til að takast á við erfið veðurskilyrði á Norður-Íshafi. Vélarnar sem um ræðir eru notaðar til að fylgjast með ísmyndun og tryggja öryggi á siglingaleiðum á svæðinu segir í tilkynningu flotans.

Undanfarin ár hefur verið unnið að gerð flugvalla í Nagurskoje á Franz Josef Landi, í Temp á Nýju-Síberíu-eyjun, Rogatsjevo á Novaja Zemlja og Narjan-Mar.

Fram hefur komið hjá talsmönnum Norðurflotans að við nýju herstöðina í Nagurskoje verði 2.500 metra löng flugbraut og vélar af gerðunum Mig-31 eða Su-34.

Flugvellir hafa verið endurbættir í Vorkuta, Tiksi, Anadjír and Aljakel. Auk þess hefur verið unnið að mannvirkjagerð bæði á Severomorsk-1 og  Severomorsk-3 flugvöllum.

Severomorsk-1 er höfuðflugvöllur Norðurflotans. Með framkvæmdum þar hefur hann í raun verður að fullu endurgerður sem nýr völlur. Þar er ný flugbraut, nýjar aðreinar, ný flughlöð, nýr ljósa- og merkjabúnaður auk stjórnstöðvar. Flugvöllurinn er á Kóla-skaga og þaðan eru langdrægar sprengjuvélar sendar út á Norður-Atlantshaf, meðal annars að ströndum Íslands. Verður aðstaða fyrir risavélar Rússa á flugvellinum stórbætt með endurnýjun hans.

Severomorsk-1 á Kóla-skaga er höfuðflugvöllur Norðurflotans.
Severomorsk-1 á Kóla-skaga er höfuðflugvöllur Norðurflotans.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …