Home / Fréttir / Umsvif rússneskra kafbáta stóraukast í nágrenni Íslands

Umsvif rússneskra kafbáta stóraukast í nágrenni Íslands

Þetta kort af Eystrasalti sýnir hvar bandaríski tundurspillirinn Donald Cook var þegar rússneskar þotur æfðu árásarflug við hann.
Þetta kort af Eystrasalti sýnir hvar bandaríski tundurspillirinn Donald Cook var þegar rússneskar þotur æfðu árásarflug við hann.

Rússneskir kafbátar eru meira nú en áður við strendur Skandinavíu og Skotlands á Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi segir bandarískur flotaforingi í vefblaðinu MailOnline fimmtudaginn 21. apríl. Þá segir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi beitt sér fyrir eflingu kafbátaflota Rússa undanfarin ár og hann sé nú öflugri en hann hafi verið undanfarna tvo áratugi á þessum slóðum.

Mark Ferguson, yfirmaður bandariska flotans í Evrópu, segir að kafbátaferðirnar hafi aukist um næstum 50% fyrir rúmu ári og vitnar þar til rússnesks flotaforingja.

Frá janúar 2014 til mars 2015 hafa umsvif rússnekra kafbáta aukist um nærri 50%  í samanburði við 2013 sagði Viktor Stjírkov, rússneskur flotaforingi, í apríl í fyrra.

Sérfræðingar sögðu The New York Times (NYT)að umsvifin hefðu „ekki breyst“ í fyrra og Rússar ættu nú fleiri árásarkafbáta á svæðinu en nokkru sinni undanfarin 20 ár.

„Við erum ekki alveg komnir í kalt stríði en ég get vissulega greint það frá mínum sjónarhóli,“ sagði James G. Stavridis, fyrrv. yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, við NYT.

Af hálfu Pólverja og Eystrasaltsþjóðanna er knúið á um meiri viðveru Bandaríkjahers í austurhluta Evrópu vegna hernaðarumsvifa Rússa frá Kaliningrad, hólmlendu þeirra, milli Litháens og Póllands við Eystrasalt.

Rússar sökuðu Bandaríkjamenn miðvikudaginn 20. apríl um ögranir með því að senda tundurspilli sinn of nærri Kaliningrad og sögðust þeir áskilja sér allan rétt til að beita herafla sínum á viðeigandi hátt ef þurfa þætti í framtíðinni.

Af hálfu NATO er því haldið fram að hvorki bandalagið né einstök aðildarríki þess gangi óhóflega fram gagnvart Rússum.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …