
Það liðu ekki nema fáeinar klukkustundir frá því að Vladimír Pútín settist í embætti forseta Rússlands í þriðja skipti árið 2012 þar til hann gaf fyrirmælin um að efla skyldi herflotann, einkum í Norður-Íshafi og við Kyrrahaf. Verjið strategíska hagsmuna ríkisins, sagði í fyrirmælunum.
Þannig hefst grein eftir Thomas Nilsen, ritstjóra vefsíðunnar Independent Barents Observer, sem birtist þriðjudaginn 31. október og lýsir vexti rússneska herflotans frá því að ofangreind fyrirmæli voru gefin. Nilsen segir að í þeim felist einnig skipun um að leggja áherslu á fælingarmátt kjarnorkuvopna og rafeinda-hernað.
Á tæpum fimm árum sem liðin eru frá 2012 hafa skip rússneska Norðurflotans verið meira á sjó en nokkru sinni síðan Sovétríkin hrundu. Yfirmaður rússneska flotans, Vladimir Koroljov aðmíráll, lýsir umsvifum flotans í löngu viðtali við blað hersins Krasnaja Zvezda (Rauðu stjörnuna). Thomas Nilsen endursegir efni viðtalsins.
„Sé talað um herskip flotans, get ég upplýst eftirfarandi: Árið 2013 voru þau 5.900 daga á sjó. Árið voru dagarnir þegar orðnir 12.700, árið 2015 14.200, árið 2016 15.600 og árið 2017 eru þeir 17.100,“ segir aðmírállinn.
Rússnesku herskipin eru með öðrum orðum næstum þrisvar sinnum fleiri daga á sjó í ár en fyrir fimm árum.
Rússnesku herskipin halda nú að nýju út á heimshöfin. Hafa til dæmis skip úr öllum fjórum flotum Rússlands tekið þátt í aðgerðum á Miðjarðarhafi.
Norðurflotinn með heimahöfn á Kóla-skaganum við austur landamæri Noregs er stærsti fjögurra flota Rússlands, hinir eru á Kyrrahafi, Eystrasalti og Svartahafi. Fyrir um það bil ári voru flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og þunga flugskeyta-beitiskipið Pjotr Velikíj (Pétur mikli) send að ströndum Sýrlands: þetta var í fyrsta sinn sem skip úr Norðurflotanum tóku þátt í raunverulegum hernaðaraðgerðum. Alls voru farnar 420 flugferðir frá Admiral Kuznetsov gegn óvinum stjórnarinnar í Sýrlandi að sögn Vladimirs Koroljov, sem var yfirmaður Norðurflotans áður en honum var falin stjórn alls herflota Rússlands.
Hann segir að nú vinni sérfræðingar flotans úr þeirri reynslu sem fékkst af notkun hátæknivopna frá herskipum og kafbátum gegn skotmörkum í Sýrlandi. Þekkingin sem verði nýtt við þjálfun og kennslu í skólum flotans.
Árið 2012 efni rússneski flotinn til rúmlega 200 æfinga af ýmsu tagi. Árið 2017 eru þær um 500. Segir aðmírállinn að þetta sýni ekki aðeins aukinn fjölda æfinga heldur meiri gæði þeirra og haldið verði áfram á sömu braut.
Thomas Nilsen segir að menn verði ekki síst varir við þessa fjölgun æfinga á Barentshafi og á siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland. Þá sé Barentshafið einnig helsta tilraunasvæðið fyrir skip og vopn annarra rússneskra flota.
Koroljov leggur áherslu á mikilvægu nýju Norðurherstjórnarinnar sem hann lýsir sem „virku tæki til að tryggja öryggi rússneskra hagsmuna á norðurskautssvæðinu“. Nú sé verkefnið að efla herstjórnina enn frekar og sjá til þess að hún sé sjálfri sér nóg.
Ný skip eru væntanleg eins og ísbrjótur flotans, Ilja Muromets. Hann verður hluti af Norðurflotanum í árslok. Fyrstu freigáturnar af Admiral Gorshkov-gerð verða bráðlega sendar til heimahafnar í Severomorsk, höfuðhöfn Norðurflotans fyrir norðan Murmansk.
Unnið er endurnýjun stærstu skipa flotans, Admiral Kuznetsov og Pjotr Velikíj. Unnið er að viðgerð á öðru kjarnorkuknúnu beitiskipi, Admiral Nakhimov, og verður lokið við hana og skipið tekið í notkun með nýjum tækjabúnaði.
Þá boðar Koroljov að í náinni framtíð verði lokið við smíði á nýjum kjarnorkukafbáti, Knjaz Vladimir. Þegar hann er fullbúinn verða 16 langdrægar Bulava-eldflaugar um borð í honum.