Home / Fréttir / Umsvif kafbátaflota Rússa á norðurslóðum að nýju á borði NATO

Umsvif kafbátaflota Rússa á norðurslóðum að nýju á borði NATO

 

GIUK-hliðið.
GIUK-hliðið.

Umræður eru að nýju að hefjast um flotaumsvif Rússa á norðurslóðum á vettvangi NATO eftir að sérfræðingar hafa dregið athygli að þessari þróun, til dæmis á þremur ráðstefnum Varðbergs hér á landi haustið 2016 en þær má allar sjá hér á vardberg.is.

Breska hugveitan og rannsóknastofnunin RUSI kynnti mánudaginn 6. mars 2017 grein eftir norska flugforingjann og herfræðinginn John Andreas Olsen undir fyrirsögninni: NATO og Norður-Atlantshaf: Endurlífgun sameiginlegra varna. Í útdrætti greinarinnar segir meðal annars:

„Þótt rússneski flotinn sé ekki sambærilegur sovéska flotanum fyrrverandi þróast hann á þann veg að langdræg geta hans kann hugsanlega að duga til að trufla siglingar og láta að sér kveða á Atlantshafi auk þess að koma í veg fyrir að floti NATO-ríkjanna geti nýst til aðgerða á hernaðarlega mikilvæga svæðinu milli Grænlands, Íslands, Bretlands og Noregs.“

John Andreas Olsen og fleiri verða ræðumenn á ráðstefnu sem Alþjóðamálastofnun HÍ og norska sendiráðið í Reykjavík efna til í Norræna húsinu föstudaginn 31. mars.

Hér fyrir neðan birtist á íslensku grein eftir norskan ofursta, Gjert Lage Dyndal, sem upphaflega kom í NATO fréttum, NATO Review, föstudaginn 24. mars. Í greininni er lýst hvernig athygli æðstu manna innan NATO var vakin á því fyrir 50 árum að hernaðarlega staðan á norðurslóðum hefði tekið stakkaskiptum.

-Svipuð staða er um þessar mundir. Eftir að hafa í um tvo áratugi litið framhjá N-Atlantshafi og norðurhöfum við gerð varnar- og hernaðaráætlana beinist athygli innan NATO nú að þessum svæðum að nýju.

Björn Bjarnason

 

50 ár frá því að athygli innan NATO beindist að hættunni af langdrægum kjarnorkukafbátum Rússa

eftir Gjert Lage Dyndal ofursta frá Noregi

Gjert Lage Dyndal
Gjert Lage Dyndal

Um þessar mundir sjáum við skýr merki um endurnýjun umræðna um flotastyrk Rússa í norðurhöfum og á Norður-Atlantshafi – ekki vegna Norður-Íshafs sjálfs, sem hefur verið rætt til þrautar í meira en áratug, heldur vegna hnattræns hlutverks rússneska flotans og fælingarmáttar kjarnorkuvopna hans. Nú eru 50 ár liðin frá því að spurningar vöknuðu innan NATO um hættu af langdrægum kjarnorkukafbátum (SSBN-kafbátar) Sovétríkjanna þegar SSBN-kafbátar af Yankee-gerð bættust í flotann. Í árlegu leyniþjónustumati NATO frá árinu 1967 má sjá að mikilli athygli var beint að þessari þróun.

Kafbátur af Yankee-gerð
Kafbátur af Yankee-gerð

Sovétmenn smíðuðu langdræga kafbáta af gerðunum Yankee og Delta sem svar við bandarísku kafbátunum af George Washington-gerð sem voru búnir Polaris-eldflaugum. Yankee-kafbátarnir eru taldir fyrstu raunverulegu sovésku SSBN-kafbátarnir þótt bátar af Hotel-gerð hafi áður komið til sögunnar. Yankee-bátarnir voru teknir í notkun árið 1967 og með SS-N-6 eldflaugunum um borð var talið að langdrægi þeirra væri 2.500 km sem gerði þeim kleift að ógna Bandaríkjunum þegar þeir voru á sveimi víðs fjarri þeim í miðju Atlantshafi.

Delta-kafbátur
Delta-kafbátur

SSBN Delta-bátarnir komu til sögunnar nokkrum árum seinna. Um borð í þeim voru SS-N-8 eldflaugar, drægi þeirra var svo mikil að Sovétmenn gátu ógnað skotmörkum í Bandaríkjunum frá Barents-hafi, heimahafi sínu. Innan sovéska Norðurflotans tóku menn til við að skilgreina Barents-haf (og síðar Okhotsk-haf) sem lokuð svæði í þágu þessara SSBN-kafbáta. Til varnar þessari brjóstvörn kafbátanna var floti árásarkafbáta, herskipa og flugvéla.

Þetta kort var gert fyrir grein í Morgunblaðinu 10. mars sl.
Þetta kort var gert fyrir grein í Morgunblaðinu 10. mars sl.

Litið var á fælingarmátt langdrægu kjarnorkukafbátanna og brjóstvörn þeirra sem þungamiðjuna í endurgjaldsafli Rússa. Rétt er að hafa í huga að yfirmanni Atlantshafsherstjórnar NATO (Supreme Allied Commander Atlantic SACLANT) misheppnaðist á sjöunda áratugnum þegar hann reyndi í fyrsta sinn að fá pólitíska forystumenn innan NATO til að beina athygli að vaxandi flotaógn Sovétmanna á norðurslóðum og á Norður-Atlantshafi og að fá yfirmann Evrópuherstjórnar NATO (Supreme Allied Commander Europe SACEUR) til að teygja meginlandsvarnirnar út á hafið.

Atlantshafsherstjórnin talar fyrir daufum eyrum

Skandinavíu-skagi skipti miklu í kalda stríðinu. Frá upphafi lá leið langdrægra sprengjuflugvéla Bandaríkjamanna með kjarnorkusprengjur innan borðs yfir norðurhluta Skandinavíu til mikilvægra staða í Sovétríkjunum. Samhliða voru flugmóður- og fylgdarskip Breta og Bandaríkjamanna send inn í Noregshaf til að minna á styrk sinn fyrir utan að veita langdrægu sprengjuvélunum loftvernd. Þar að auki studdu Bandaríkjamenn mikla uppbyggingu á norska hernum í sama tilgangi.

Sóknarstefnan á svæðinu undir forystu Bandaríkjamanna ríkti frá upphafi kalda stríðsins þar til snemma á sjöunda áratugnum. Þegar þangað var komið höfðu langdrægar eldflaugar búnar kjarnaoddum tekið við hlutverki meginvopna kalda stríðsins. Norðurslóðir hættu að skipta Bandaríkjamenn jafn miklu og áður.

Innan NATO og hjá SACEUR litu menn hins vegar allt öðrum augum á hernaðarlegt mikilvægi svæðisins. Norðurslóðir áttu varla nokkurn sess í varnarstefnu NATO. Innan NATO höfðu menn almennt skilgreint „norðurvæng“ bandalagsins á þann veg að hann næði til suðurhluta Skandinavíu, Eystrasaltsins og aðkomuleiða þangað. Herstjórn norðurvængsins var valinn staður í Osló árið 1951 og norður-herstjórnin (Allied Forces North eða AFNORTH) náði yfir norðurhluta varnarsvæðis Evrópuherstjórnarinnar, SACEUR. Ráðandi viðhorf til svæðisins í hernaðarlegu tilliti var að þetta væri „taktískur norðurvængur“ miðlægu varnarlínunnar á meginlandi Evrópu.

Fram undir miðjan sjöunda áratuginn sagði ráðgjafanefnd um Atlantshafsstefnuna (Atlantic Policy Advisory Group) að hafa bæri í huga þrjá meginþætti við mat á herstjórnarlegu gildi norðurvængsins (þ. e. Skandinavíu):

hann hindraði aðgang Sovétmanna að tempruðum hafsvæðum;

þar mætti hafa stöðvar til gagnsóknar (þ. á m. gegn kafbátum);

þar væri góð aðstaða til að greina og vara við yfirvofandi árás.

s-l300

Innan Atlantshafsherstjórnarinnar, SACLANT, gerðu menn sér æ betur grein fyrir því á sjöunda áratugnum að flotaumsvif Sovétmanna jukust. Af þeim sökum reyndu þeir – upphaflega árangurslaust – að fá æðstu menn NATO til að beina athygli sinni að flotamálefnum. SACLANT sendi frá sér tvær mikilvægar skýrslur árið 1965 þar sem fjallað var um vaxandi hættu af flota Sovétmanna: Viðbragðsathugun vegna Norður-Noregs (Contingency Study for Northern Norway) og Flotastefna NATO (NATO Maritime Strategy), hvorug breytti þá miklu.

Tvö ár liðu þar til skýrslurnar drógu að sér athygli og við þeim var brugðist í umræðum á árinu 1967 þegar unnið var að nýrri og sveigjanlegri flotastefnu NATO. Hún var reist á tveimur stoðum: fastaflota undir merkjum NATO og viðbótarskipum ef þörf krefðist.

NATO viðurkennir SSBN-ógnina

Nú er almennt viðurkennt að tilkoma langdrægu kafbátanna hafi ráðið miklu um stefnumótun í hermálum í kalda stríðinu. Athugun á skjalasafni NATO sýnir þó að á fyrstu árum þessara kafbáta hafi þeir ekki vakið mikla athygli á æðstu stöðum innan NATO (fyrir utan SACLANT). Langdrægu kafbátarnir höfðu verið á sveimi í nokkur ár þegar fyrst var fjallað um hættuna vegna þeirra á áberandi hátt í árlegu hættumati árið 1967 (Sjá SG/161 The Soviet Bloc Strength and Capabilities).

Talið var að langdrægu kafbátarnir héldu sig í tveggja til þriggja daga siglingu frá skotstöðvum væri ætlunin að ná til skotmarka í Bandaríkjunum. Frá mörgum þessara kafbáta mátti skjóta eldflaugum úr kafi (að minnsta kosti var þeim skotið þannig í tilraunaskyni). Þá var boðað að nýir „verulega endurbættir“ SSBN-bátar kæmu til sögunnar árið 1968 og bættust við þá kafbáta sem fyrir væru. Þetta fellur vel að sögu kafbátanna sem innan NATO voru kallaðir af Yankee-gerð en sovéskar heimildir sýna að þeir urðu haffærir á árinu 1967.

Nýju kafbátarnir voru hljóðlátari en forverar þeirra og eldflaugar þeirra voru langdrægari en í eldri bátunum. Tilkoma þeirra olli þáttaskilum í afstöðu forystumanna NATO. Mat þeirra breyttist á þann veg að nú var endanlega litið á SSBN-bátana sem raunverulega skotpalla fyrir langdrægar kjarnorkuflaugar og innan NATO voru þeir taldir marktæk ógn. Þetta er áhrifamesta skýringin á því hvers vegna norðurslóðir, athafnasvæði sovéska Norðurflotans, varð miðlægur hluti af varnarstefnu NATO. Ekki var lengur litið á svæðið sem einskonar afgangsstærð, „taktískan norðurvæng“ miðsvæðisins, heldur varð það að sjálfstæðu svæði við töku ákvarðana um hernaðarlegar aðgerðir.

Þegar litið er til baka blasir þetta við: SACLANT kynnti í nokkur ár hættumat þar sem varað var við vaxandi flotaumsvifum Sovétmanna án þess að það vekti í raun athygli æðstu manna innan NATO í Evrópu fyrr en á árinu 1967 – þá voru sovésku kafbátarnir orðnir að mikilvægu langdrægu vopni.

Aftur til framtíðar

Á síðari helmingi kalda stríðsins gerðu herfræðingar sér glögga grein fyrir gildi fælingarmáttar langdrægu sovésku kafbátanna og brjóstvarnarinnar umhverfis þennan kjarna í endurgjaldsgetu Sovétmanna – eftir að kalda stríðinu lauk hélt þessi geta gildi sínu fyrir Rússa. Undanfarna tvo áratugi hefur staðan hins vegar verið sú að háskólamenn, stjórnmálamenn og flestir herfræðingar hafa beint minni athygli en áður að fælingarmætti kjarnorkuvopna vegna hernaðaraðgerða utan varnarsvæðis NATO.

Nú er stórveldapólitíkin komin til sögunnar að nýju og þá verðum við að beina athyglinni að nýju að gildi fælingarmáttarins í þeirri pólitík og ræða tilvistarógn á okkar svæði án þess, að sjálfsögðu, að gleyma óstöðugleika og margbrotnum ógnum á fjarlægari stöðum.

Gagnkvæm gjöreyðing
Gagnkvæm gjöreyðing

Hvað sem öðru líður hefðum við ekki átt að missa sjónar á fælingarmætti kjarnorkuvopnanna í umfjöllun um deilur á undanförnum tuttugu árum. Fælingarmáttur kjarnorkuvopna var og er enn forsendan fyrir því að rússneska ríkið birtist (reynir að birtast) sem risaveldi. Þótt Rússland sé ekki lengur risaveldi veldur fælingarmáttur kjarnorkuvopna því að við lifum enn í MAD-heimi þar sem þrjú stórveldi hafa getu til gagnkvæmrar gjöreyðingar (Mutually Assured Destruction, MAD). Of lítil athygli hefur beinst að þessari staðreynd sem mótar umgjörðina um hve miklu hernaðarlegu og pólitísku valdi þessar þjóðir geta beitt og verða að taka tillit til þegar glímt er við deilur í Úkraínu, Mið-Austurlöndum og annars staðar.

Á fræðilegum umræðuvettvangi eru menn teknir til við að ræða að nýju um brjóstvörnina og fælingarmátt rússneskra kjarnorkuvopna. Skýrsla sem samin er af fræðimönnum beggja vegna Atlantshafs á vegum Royal United Services Institute and Whitehall í London í samvinnu við Center for Strategic and International Studies verður kynnt undir lok mars 2017 í höfuðstöðvum NATO.

Gjert Lage Dyndal ofursti starfar nú við herfræðilega greiningu (Strategic Analysis Capability) í höfuðstöðvum NATO. Hann hefur áður veitt háskóladeild norska flughersins forstöðu og einnig verið einn af forstöðumönnum norska herráðs- og herforingjaskólans. Hann hefur birt fjölda greina um norðurslóðamálefni og önnur mál.

Greinar í NATO Review lýsa skoðunum höfunda þeirra en ber ekki að skoða sem opinbera stefnu ríkisstjórna innan bandalagsins eða NATO.

Þessi grein er reist á eldri greinum höfundarins, þær eru:

How the High North became Central in NATO Strategy: Revelations from the NATO Archives, Journal of Strategic Studies, Aug 2011, Vol. 34 Issue 4;

The Northern Flank and High North Scenarios of the Cold War, in Bernd Lempke ed., Periphery or Contact Zone? The NATO Flanks 1961 to 2013 (Freiburg: Rombach Verlag, 2015).

Hér má sjá nýlega umræðu um málið:

https://www.csis.org/events/nato-and-north-atlantic-revitalizing-collective-defense

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …