Home / Fréttir / Umsóknir Finna og Svía í höndum NATO – Erdogan stöðvar framgang þeirra

Umsóknir Finna og Svía í höndum NATO – Erdogan stöðvar framgang þeirra

Sendiherrar Svía og Finna á leið með NATO-umsóknirnar til Jens Stoltenbergs framkvæmdastjóra.

Finnar og Svíar afhentu formlega umsóknir sínar um aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) miðvikudaginn 18. maí.

Klaus Korhonen, sendiherra Finnlands, og Axel Wernhoff, sendiherra Svíþjóðar, afhentu Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, umsóknirnar snemma dags. Hann fagnaði þeim sem „sögulegum viðburði“ í evrópskum öryggis- og stjórnmálum.

Næsta skref er að fulltrúar NATO-ríkjanna 30 fara yfir umsóknirnar og taka afstöðu til þess hvort bjóða eigi Finna og Svía velkomna í bandalagið.

Meirihluti aðildarríkjanna hefur þegar fagnað umsóknunum. Það á hins vegar ekki við um Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, sem segist ekki hlynntur aðild ríkja sem skjóti skjólshúsi yfir „hryðjuverkamenn“.

„Við erum staðráðin í taka öll mál fyrir og komast að skjótum niðurstöðum,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundi að morgni miðvikudags 18. maí.

Síðla þennan sama dag birti The Financial Times frétt um að Tyrkir hefðu brugðið fæti fyrir frekari framgang umsókna Finna og Svía á vettvangi NATO. Þeir hefðu hindrað að greidd yrðu atkvæði um að hafin skyldi yfirferð umsóknanna.

Í ræðu á tyrkneska þinginu 18. maí endurtók Erdogan ásakanir sínar um að Finnar og Svíar væru hliðhollir „hryðjuverkasamtökum“.

„Þið afhendið ekki hryðjuverkamenn en þið viljið ganga í NATO. Við getum ekki játast öryggisstofnun sem er án öryggis,“ sagði hann.

Finnska ríkisútvarpið, YLE, segist hafa upplýsingar um að tyrknesk yfirvöld hafi undanfarin fimm ár óskað eftir að finnsk stjórnvöld framselji nokkra einstaklinga til Tyrklands, þar á meðal sex félaga í Gülen-hreyfingunni og sex félaga í Verkamannaflokki Kúrdistan (PKK).

Erdogan sagði einnig að eina sem hann vænti væri að bandamenn Tyrkja í NATO skyldu fyrst að þetta væri Tyrkjum viðkvæmt mál, síðar virtu þeir skoðun Tyrkja og að lokum samþykktu þeir hana.

Hann sagðist hafa beðið Svía að framselja 30 hryðjuverkamenn en þeir hefðu neitað því.

Svíar settu vopnasölubann á Tyrki árið 2019 þegar þeir réðust inn í Sýrland.

„Okkur er kappsmál að vernda landamæri okkar gegn árásum hryðjuverkasamtaka,“ sagði Erdogan og hvatti bandamenn Tyrkja í NATO til að styðja „lögmætar“ aðgerðir þeirra í Sýrlandi eða að minnsta kosti ekki leggja stein í götu þeirra.

Tyrklandsforseti sagðist ekki taka vel í beiðni Svía og Finna um að tekið yrði á móti sendinefndum þeirra í Ankara, höfuðborg Tyrklands.

„Þeir vilja koma á mánudaginn. Þeir ættu að sleppa því. Þess er ekki þörf,“ sagði hann.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …