
Í Frakklandi og Bretlandi hafa orðið líflegar umræður á stjórnmálavettvangi um aðild landanna að árásunum á efnavopnastöðvar Sýrlandsstjórnar aðfaranótt laugardags 14. apríl. Í þingum beggja landa gefa forsætisráðherrar þeirra skýrslu mánudaginn 16. apríl.
Frakkland
Í franska þinginu verður síðdegis mánudaginn 16. apríl gerð grein fyrir aðgerðum herja Frakka, Breta og Bandaríkjamannaí Sýrlandi. Ekki verður gengið til atkvæða um málið í þinginu.
Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, efndi til fundar að morgni sunnudags 15. apríl með forystumönnum öldungadeildar og fulltrúadeildar franska þingsins. Á fundinum var ákveðið að boða til sérstakra umræðna í fulltrúadeildinni síðdegis á mánudeginum.
François de Rugy, forseti fulltrúadeildarinnar, óskaði eftir fundinum. Þar verður öllum þingheimi gerð grein fyrir hernaðarlegum og stjórnmálalegum þáttum málsins. Franska stjórnin hefur kynnt sérstaka áætlun um alþjóðlegt framtak í þágu mannúðar og friðar í Sýrlandi.
Í 35. gr. frönsku stjórnarskrárinnar segir að ríkisstjórnin skuli upplýsa þingið um ákvörðun sína um að senda herafla til aðgerða erlendis innan þriggja daga frá því að íhlutunin hófst. Eftir slíka skýrslugjöf kunni að fara fram umræður án atkvæðagreiðslu. Sé frönskum herafla haldið úti lengur en fjóra mánuði erlendis skal ríkisstjórnin óska eftir heimild þingsins til lengra úthalds.
Le Monde segir að það sæti gagnrýni ýmissa franskra stjórnmálamanna að stofnað hafi verið til árásarinnar án umboðs frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Nefnir blaðið að vinstrisinninn Jean-Luc Mélenchon, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar Marine Le Pen og Laurent Wauquiez, nýr formaður Lýðveldisflokksins (mið-hægri) gagnrýni ríkisstjórnina. Á hinn bóginn njóti aðgerðin stuðnings Sósíalistaflokksins og einstaklinga úr röðum mið-hægrimanna og nefnir blaðið Alain Juppé og Xavier Bertrand, auk þess styður lítill mið-hægriflokkur, UDI, stefnu stjórnarinnar.
Í flokki Mélechons nota menn atvikið núna til að gagnrýna „konunglegan hroka“ Emmanuels Macrons Frakklandsforseta sem hafi „aleinn dregið rauðar línur“. Spyrja þeir: „Er maður nú orðinn lögreglustjóri plánetunnar?“
Emmanuel Macron Frakklandsforseti segist hafa „sönnun“ fyrir sekt Bashars al-Assads Sýrlandsforseta.
Bretland
Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokkjsims, lýsti í BBC sunnudaginn15. apríl efasemdum um að Sýrlandsforseti bæri ábyrð á efnavopnaárásinni sem gerð var á Douma 7. apríl 2018. Hún varð tilefni árásar ríkjanna þriggja 14. apríl.
Corbyn hvatti til þess að sett yrðu ný lög vegna stríðsaðgera til að takmarka heimild breska forsætisráðherrans til að gefa fyrirmæli um hernaðaraðgerð án þess að leita eftir samþykkt breska þingsins og fá hana.
Corbyn lýsti yfir efasemdum um lögmæti árásanna og sagði að lögfræðileg skýring ríkisstjórnarinnar, reist á mannúðarsjónarmiðum, væri almennt ekki tekin góð og gild af öðrum ríkjum. Í bréfi til Theresu May forsætisráðherra óskaði hann eftir að sjá lögfræðilega álitið sem ráðherranum var veitt við undirbúning árásarinnar.
Afstaða Corbyns hefur verið harðlega gagnrýnd af hans eigin flokksmönnum á samfélagsmiðlum.
Brandon Lewis, formaður Íhaldsflokksins, sagði að með því að neita að skella skuld á Assad-stjórnina sýndi Corbyn að hann hefði „meiri áhyggjur af því að valda Rússum uppnámi en að koma í veg fyrir notkun efnavopna“.
Theresa May gefur neðri deild breska þingsins skýrslu um árásina mánudaginn 16. apríl. Forsætisráðherranum var ekki skylt að lögum að fá heimild þingsins til að gefa hernum fyrirmæli um að grípa til vopna.