
Þriggja vikna heræfingar á vegum NATO, Trident Juncture, hófust mánudaginn 19. október. Heræfingunum er lýst sem hinum umfangsmestu á vegum bandalagsins síðan árið 2002.
Æft er á landi, sjó og í lofti, á Spáni, Ítalíu og í Portúgal, á Miðjarðarhafi og Atlantshafi og einnig í Kanada, Noregi, Þýskalandi, Belgíu og Hollandi.
Alls taka 36.000 hermenn frá rúmlega 30 bandalags- og samstarfsríkjum í 230 herflokkum, 140 flugvélar og rúmlega 60 skip þátt í æfingunum. Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, sagði að með æfingunum vildi NATO sýna að bandalagið gæti látið að sér kveða í „dímmari og hættulegri veröld“.
Æfingasvæðinu hefur verið gefið nafnið Soroton og er reist á ímynduðum aðstæðum í Afríku.
Meðal þátttakenda eru embættismenn og hermenn frá ríkjum utan NATO eins og Úkraínu og Sambandi Afríkuríkja.
Rússum hefur verið boðið að fylgjast með æfingunum. Þeir efndu til 45.000 manna æfinga fyrr á árinu og einnig á Miðjarðarhafi áður en þeir hófu loftárásir í Sýrlandi.
Með æfingunum sýnir NATO að áherslur þess breytast – bandalagið hefur í rúman áratug gegn forystuhlutverki í Afganistan en snýr sér nú að vörnum landsvæðis aðildarríkja sinna. NATO lítur í því efni einkum í austurátt eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga í mars 2014.