Home / Fréttir / Umdeilt að framlengja líftíma dönsku Thetis-skipanna í norðurhöfum

Umdeilt að framlengja líftíma dönsku Thetis-skipanna í norðurhöfum

Vædderen á eftirlitssiglingu við Grænland árið 2008.

Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að herskipunum Thetis, Triton, Vædderen og Hvidbjørnen sem notuð eru til eftirlits á Norður-Atlantshafi við Grænland og Færeyjar, oft með viðkomu í Reykjavíkurhöfn, skuli enn haldið úti í 15 ár. Nú eru rúm 30 ár frá því að þessi svonefndu Thetis-skip voru tekin í notkun.

Þetta kom fram í fréttum dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 og á vefsíðunni Altinget Arktis mánudaginn 20. nóvember.

Torben Ørting Jørgensen, fyrrverandi flotaforingi og formaður varnarmálasamtakanna Folk og Sikkerhed, telur að í ákvörðuninni um að halda skipunum úti áfram felist alröng forgangsröðun.

„Það er óumdeilt að Thetis-skipin eru á því stigi að það er ekki lengur rétt að nota þau áfram. Sé ætlunin að verja miklu fé til að lappa upp á þau og lengja líftíma þeirra er þeim fjármunum kastað á glæ,“ segir hann.

Hans Peter Michaelsen, sjálfstæður herfræðingur sem býr yfir meira en 40 ára reynslu við mat á dönskum varnarmálum, er sammála þessu.

„Thetis-skipin eru þegar orðin 30 ára gömul og þau verða því orðin mjög gömul þegar þeim verður lagt. Þessu fylgir bæði vandi við viðhald þeirra og almennt er óljóst hvort þau nýtist sem skyldi við lausn framtíðarverkefna,“ segir hann.

Nú eru skipin bæði nýtt til að sinna hernaðarlegum verkefnum sem felast í eftirliti í norðurhöfum en þau eru einnig notuð til strandgæslu, leitar og fiskveiðieftirlits.

Megi marka fréttir um þetta sem reistar eru á gögnum sem lekið var frá dönsku herstjórninni er ætlunin að veita á árunum 2031-2037 fé til að hanna og smíða ný skip sem taki við af Thetis-skipunum. Fram til þess tíma á að verja 1,3 milljörðum DKK (27 milljörðum ISK) til að lengja líftíma gömlu skipanna.

Torben Ørting Jørgensen telur þetta óskynsamlega ráðstöfun á fjármunum, skipin séu einfaldlega of slitin fyrir utan að þeim hafi áður verið breytt til að geta borið þyngri þyrlur en ráðgert var í upphafi. Orð hans beri ekki að skilja á þann veg að skipin sökkvi „á morgun“ en nú sé komið að því að endurnýja skipakostinn til að tryggja öflugar varnir næstu 30 til 40 árin.

Hans Peter Michaelsen segist ekki efast um að skipin geti sinnt strandgæslu, leit, björgun og eftirliti með veiðum en sé litið til hernaðarlegra verkefni sé ástæða til að hafa áhyggjur. Um borð sé hvorki nauðsynlegur eftirlits- né vopnabúnaður.

Í fréttunum segir að danska herstjórnin telji forgangsmál að efla flugherinn meðal annars með kaupum á tveimur eða þremur nýjum Boeing P-8A Poseidon-kafbátaleitar- og eftirlitsvélum.

Hans Peter Michaelsen gagnrýnir þessa forgangsröð, þörf sé á fjölhæfari eftirlitsvél. Bandaríkjamenn, Bretar og Norðmenn ráði nú þegar yfir P-8A vélum sem haldi uppi eftirliti á Norður-Atlantshafi.

Torben Ørting Jørgensen segir að Danir hafi aldrei staðið framarlega í kafbátaleit og þess vegna sé ekki augljóst að danska varnamálaráðuneytið verji miklu fé til að kaupa P-8A vélar. Þær kæmu aldrei í stað Thetis-skipanna.

Danska herstjórnin er sögð leggja áherslu á að 1,6 milljörðum DKK (33 milljörðum ISK) verði varið til framkvæmda við flugvöllinn í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði), 51 milljón DKK (1 milljarði ISK) verði varið til að efla Sirius-eftirlitið nyrst í Austur-Grænlandi auk 605 milljóna DKK (12,5 milljarða ISK) til að styrkja bækistöðvar hersins í Meistaravík, Station Nord og Danevang.

 

Heimild: grænlenska útvarpið, KNR.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …