Home / Fréttir / Umdeildar eyjar í Austur-Kínahafi

Umdeildar eyjar í Austur-Kínahafi

Eyjarnar Senkaku/Diaoyu í Austur-Kínahafi

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Þó flestir vonist eftir friðsamri veröld þá dugir óskhyggja ein og sér ekki til að tryggja það enda leynast hættur víða.  Sum svæði í veröldinni eru ótryggari heldur en önnur.  Eitt þeirra er af og til í fréttum en það er Suður – Kínahaf.  Nokkur Asíuríki deila um yfirráð yfir því og er staða mála viðkvæm.

Suður – Kínahaf er ekki eina hafsvæðið í Suðaustur – Asíu þar sem átök gætu brotist út.  Þannig er að við hliðina á því er Austur – Kínahaf og um það er líka deilt.  Nánar tiltekið deila Japanir, Kínverjar og Tævanar um eyjur á svæðinu sem kallast Senkaku/Diaoyu (Japanir kalla þær Senkakushoto en Kínverjar Diaoyudao).  Um er að ræða fimm eyjar og nokkur minni sker.  Engin eyjanna er stór, sú stærsta er á stærð við Miðgarð (e. Central Park) í New York og því myndu ókunnugir varla ætla að þær væru efni til deilna.  Svo er hins vegar raunin og þær eru ekki nýjar af nálinni.

Kínverjar uppgötvuðu eyjurnar á 15. öld en Japanir eignuðu sér þær árið 1895.  Á þeim tíma var Kínaveldi mjög veikburða og gat ekki komið í veg fyrir yfirtöku Japana.  Þegar Japanir gáfust upp fyrir bandamönnum í lok síðari heimsstyrjaldar voru eyjurnar ekki meðal þeirra landsvæða sem þeir þurftu að láta frá sér.  Bandaríkjamenn tóku hins vegar yfir stjórn eyjaklasans en þeir afhentu Japönum eyjarnar aftur árið 1972.   Núverandi deilur Japana og Kínverja um þær hófust árið 2010 þegar kínverskur togari lenti í árekstri við japanskt varðskip við eyjurnar.

Nokkuð dró úr spennu er áhöfn togarans var leyst úr haldi en deilan magnaðist aftur árið 2012 er ríkisstjórn Japans keypti nokkrar af eyjunum sem höfðu verið í einkaeigu.  Eftir að leiðtogar Kína og Japans hittust árið 2014 hefur verið heldur friðsamlegra á svæðinu en ástandið er hins vegar viðkvæmt.  Ekki bætir úr skák að brytust átök út þá er nánast öruggt að Bandaríkjamenn myndu dragast inn í þau.

20130119_ldm938

Þeir sem fjalla um deilurnar um eyjurnar halda því flestir fram að þær snúist annars vegar um öryggishagsmuni ríkjanna og hins vegar um yfirráð yfir auðlindum á svæðinu.  Þetta er hins vegar ekki skoðun Todds H. Halls.  Todd sem kennir alþjóðastjórnmál við Oxford háskólann skrifaði nýlega grein um málið á vefsíðuna War on the Rocks sem fjallar um utanríkis- og öryggismál.

Hann fjallar fyrst um hvort eyjarnar skipti máli fyrir öryggi Kína.  Hann segir svo ekki vera.  Þær eru afar litlar og því ekki hægt að koma umfangsmiklum varnarkerfum upp þar.  Staðsetning þeirra er ekki heldur mjög mikilvæg.  Hvað Kínverja varðar skiptir þá miklu meira máli að ná yfirráðum yfir svokallaðri fyrstu eyjakeðju, umdeildu eyjarna eru ekki hluti hennar.  Í fyrstu eyjakeðjunni eru eyjar sem liggja við meginland Austur – Asíu.  Næðu Kínverjar yfirráðum yfir hafsvæðunum þar væru þeir í góðri stöðu til að sækja inn á vesturhluta Kyrrahafsins.  Kínverskir herfræðingar tala oft um  þrjár eyjakeðjur.  Önnur keðjan nær frá Japan, í gegnum Maríana eyjaklasann og til Míkrónesíu.  Sú þriðja liggur frá Aljútaeyjum, þaðan til Hawaii og síðan til Nýja – Sjálands.

Eftir að hafa minnst á að eyjarnar fimm hafi lítið hernaðarlegt gildi snýr Todd sér að efnahagshliðinni og segir að það sé ekki heldur eftir miklu að slægjast fyrir ríkin á því sviði.  Fiskimiðin voru eitt sinn gjöful en munu ekki vera eins mikilvæg í dag.  Hvað varðar náttúruauðlindir hefur ekki verið staðfest hversu ríkulegar þær eru og telja í raun sumir að virði þeirra sé mun minna en í fyrstu var talið.

Um hvað snýst deilan þá? Todd H. Hall segir hana ekki lengur snúast um eyjarnar sem slíkar, hún sé þess í stað orðin táknmynd erfiðra samskipta nágrannanna tveggja.  Kínverjar líta á deiluna sem enn eitt dæmið um ofríki Japana í heimshlutanum.  Japanir á hinn bóginn tengja hana við aukinn styrk Kínverja á alþjóðavettvangi, af honum hafa þeir áhyggjur.  Staða mála er því flókin og lausn er ekki í sjónmáli.  Því er mikilvægt fyrir alþjóðasamfélagið að hafa auga með þessu eldfima svæði.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …