Fá svæði á jarðkringlunni eru jafn hrjóstrug og norðurheimskautssvæðið. Því þarf ekki að undra að lítið hefur verið fjallað um heimshlutann í gegnum tíðina. Það er helst er einstakir atburðir áttu sér stað, svo sem eins og umdeild Pólför Bandaríkjamannsins Robert E. Peary árið 1909 eða þegar bandaríski kjarnorkukafbáturinn Nautilus sigldi undir ísbreiðuna á honum árið 1958, sem fréttir af svæðinu rötuðu í heimsfréttirnar.
Í dag er öldin önnur og norðurslóðir eru reglulegt fréttaefni helstu fjölmiðla veraldar. Ástæðan fyrir því er að umhverfi svæðisins er að breytast. Heimskautsísinn hopar nokkuð sem hefur orðið til þess að umferð um svæðið hefur aukist til muna og einnig er nú auðveldara að ná til þeirra gífurlegu náttúruauðlinda sem er að finna norðan við heimskautsbaug.
Aukinn áhugi kallar á aukna þekkingu á svæðinu. Gera má ráð fyrir því að sá lærdómur vekji áhuga margra. Því þarf ekki að koma á óvart að á undanförnum árum hafa verið skrifaðar margar bækur um málefni sem tengjast hinu nýja norðri ef svo má að orði komast. Ein þeirra er Routledge Handbook of Arctic Security sem samnefnd bókaútgáfa gaf út á síðasta ári. Er bókin þess virði að lesa?
Helsti kostur bókarinnar er hversu yfirgripsmikil hún er. Henni er skipt í fimm hluta. Nefnast þeir á ensku: Theorizing Arctic security, The Arctic powers: “Arctic Five” and “Arctic Eight”, Security in the Arctic through governance, Non-Arctic states, regional and international organizations og People, states, and security. Í hverjum hluta eru nokkir kaflar en þeir eru alls 35 talsins. Af þessu má sjá að í bókinni er fjallað um fjölbreytt viðfangsefni sem tengjast norðurslóðum. Annar styrkur bókarinnar er að hún er ekki rituð af aðeins einum eða tveimur einstaklingum heldur eru flestir kaflarnir skrifaðir af mismunandi höfundum (stundum nokkrum saman). Alls eru höfundarnir 45 sem sýnir að ritstjórar bókarinnar hafa gætt þess að yfirgripsmikil þekking og mismunandi sjónarhorn koma fram í bókinni.
Þrátt fyrir þetta er hætt við að lesendur bókarinnar verði fyrir nokkrum vonbrigðum með hana. Alvarlegasti gallinn er að í bókinni eru ýmsar staðreyndavillur. Ekki er um smávægilegar yfirsjónir að ræða heldur vitleysur sem verður að teljast furðulegt að hægt sé að finna í fræðibók frá þessu virta forlagi. Þannig er Atlantshafsbandalagið (NATO) nokkrum sinnum nefnt North American Treaty Association. Annað dæmi er að á einum stað er Ísland sett í hóp með ríkjum á norðurslóðum sem hafa farið illa með frumbyggja í gegnum tíðina.
Lesandinn hlýtur að spyrja sig hvað annað sé vitlaust í bókinni fyrst að þessi augljósu mistök rötuðu á síður hennar.
Snúið er fyrir lesanda að átta sig á öllu sem í bókinni birtist þar sem stundum er erfitt að skilja hvað sumir höfundarnir eru að segja. Hér á ég við kafla þar sem höfundar vísa um of í sérfræðihugtök og þau notuð til að setja fram víðtækar fullyrðingar án þess að nokkur rökstuðningur fylgi. Ekki bætir úr skák að ritstíll höfunda er á köflum óskýr. Of mikið er einnig um endurtekningar í bókinni, bæði í mismunandi köflum og innan einstakra kafla. Einhverjir kunna að segja að þar sem um handbók sé að ræða en ekki fagurfræðirit eigi gagnrýni af þessu tagi ekki við. Ekki sé ég hins vegar að neinn akkur sé í því að gefa út bók sem er þungmelt.
Niðurstaðan er því sú að þó umtalsverðan fróðleik sé að finna í bókinni þá séu gallarnir einnig ýmsir sem veldur vonbrigðum enda hefur greinilega mikið verið lagt í þessa afar dýru bók. Markhópurinn, þ.e. fræðimenn, ættu að hafa þetta í huga áður en þeir leggja í lestur á þessu riti. Aðrir sem hafa áhuga á málefnum norðurslóða geta vissulega fræðst um ýmislegt af lestri bókarinnar en það verður varla ánægjulestur.
Höfundur:
Kristinn Valdimarsson