Home / Fréttir / Um bókina: Trump gegn Bandaríkjunum

Um bókina: Trump gegn Bandaríkjunum

Michael S. Schmidt
Michael S. Schmidt

Í byrjun mánaðarins kom út bókin Donald Trump v. the United States eftir Michael S. Schmidt sem er blaðamaður hjá The New York Times.  Undirtitill bókarinnar dregur saman efni hennar: Inside the Struggle to Stop a President.  Fram kemur í bókinni að margir í Washington hafi áhyggjur af framferði Trumps.  Þeir velta fyrir sér hvort hann hafi í raun hagsmuni ríkisins að leiðarljósi.  Dregur Schmidt upp mynd af tilraunum háttsettra aðila innan stjórnkerfisins til þess að setja forsetanum stólinn fyrir dyrnar.

Í bókinni er sögð saga tveggja aðila sem störfuðu fyrir forsetann og eins annars máls.  Fyrst segir höfundur frá James Comey sem var yfirmaður alríkislögreglunnar (FBI).  Þegar fréttir bárust af því að forsetaframbjóðandinn Donald Trump kynni að vera að mála hjá Rússum hóf FBI að rannsaka málið.  Trump var mjög ósáttur við rannsóknina og fljótlega eftir að hann varð forseti fór hann að athuga hvort hann gæti bundið enda á hana.  Einn þeirra sem gegndi stóru hlutverki í þeirri refskák var Don McGahn sem var lögfræðingur Hvíta hússins.  Er hann önnur aðalpersóna bókarinnar.  Er McGahn hóf störf hjá Trump var hann stuðningsmaður hans en fljótlega skipti hann um skoðun.  Eitt af því sem stuðlaði að því var að Trump ákvað í maí 2017 að reka Comey úr embætti.  Sú ákvörðun reyndist afdrifarík því í kjölfarið ákvað dómsmálaráðuneytið að hefja sjálfstæða rannsókn á ásökununum gegn Trump og var Robert Mueller skipaður sérstakur saksóknari.  Rannsóknin sem hann stýrði er þriðja meginviðfangsefni bókarinnar.

Bókarhöfundur er virtur rannsóknarblaðamaður og greinilegt er að hann hefur haft góðan aðgang að mörgum þeirra sem voru þátttakendur í dramanu sem átti sér stað í Washington því hann lýsir oft málavöxtum í smáatriðum.  Þetta gefur bókinni aukið vægi.  Schmidt skrifar líka lipurlega og stundum er frásögnin líkt og spennusaga.  Þetta á sérstaklega við þegar hann blandar sjálfum sér inn í söguna til að lýsa heimildavinnunni.  Eitt sitt þurfti hann til að mynda að hlaupa um Washingtonborg til þess að ná tali af aðila sem gat veitt honum mikilvægar upplýsingar.

En nær bókin því meginmarkmiði sínu að dýpka skilning lesandans á stjórnartíð Trumps?  Hér tekst bókarhöfundi ekki nægilega vel upp.  Fyrst er að nefna að líkt og titill bókarinnar gefur til kynna þá er leiðarstef hennar að Trump sé gjörspilltur einstaklingur sem sé að valda Bandaríkjunum óbætanlegum skaða.  Þetta geta ekki talist nýjar fréttir.  Höfundur dregur fram ýmsar nýjar upplýsingar um heimskupör forsetans en gera má ráð fyrir að lesandinn sé mettaður af þess háttar frásögnum.  Annar galli er sá að þó að höfundur sé að segja samtímasögu getur hann eðlilega ekki fjallað um nýjustu atburði og væringar enda tekur nokkurn tíma að gefa út bók.  Lesandi sem fylgist vel með stjórnmálum í Washington veit því ýmislegt sem ekki kemur fram í bókinni nokkuð sem dregur úr gildi hennar sem heimildarits.  Það er líka hnökri á bókinni að þrátt fyrir að höfundurinn hafi lagst í mikla rannsóknarvinnu þá tókst honum ekki að ráða allar gáturnar.  Besta dæmið eru vangaveltur höfundar um heilsufar Roberts Mueller.  Í köflunum um vinnu sérstaka saksóknarans er ýjað að því að hann hafi ekki gengið heill til skógar.  Fram kemur í bókinni að Schmidt hafi reynt að komast að því hvort þetta væri rétt og hvað væri þá að Mueller en honum tókst ekki að fá svar við þessari lykilspurningu.

Niðurstaðan er því sú að þó að bókin sé áhugaverð á hún í raun aðeins erindi við þá sem hafa afar mikinn áhuga á að skygnast bak við tjöldin í stjórnmálalífi Washingtonborgar síðustu árin.

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …