Home / Fréttir / Úkraínustríðið: Rússar svíkja fyrirheit um brottflutning fólks

Úkraínustríðið: Rússar svíkja fyrirheit um brottflutning fólks

Myndin er frá Mariupol í Úkraínu og sýnir fólk leita skjóls eftir svik Rússa.

Hlé varð á brottflutningi fólks frá hafnarborginni Mariupol við Azov-haf í Úkraínu laugardaginn 5. mars þegar héraðsyfirvöld í Donbass sökuðu Rússa um að ganga á bak orða sinna um vopnahlé og hefja þess í stað stórskotahríð á flóttaleiðir.

Aðfaranótt laugardagsins fór Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, hörðum orðum um NATO fyrir að hafna ósk sinni um flugbann (e. no-fly zone) yfir land sitt. Sagði forsetinn: „Allir sem deyja frá deginum í dag deyja einnig vegna ykkar.“

Á utanríkisráðherrafundi NATO (með Svíum og Finnum) var föstudaginn 4. mars ákveðið að halda herjum undir fána bandalagsins utan átakanna. Í yfirlýsingu um flugbann af hálfu NATO fælist stríðsyfirlýsing af hálfu varnarbandalagsins.

Þetta gerðist helst í stríðinu í Úkraínu laugardaginn 5. mars:

  • Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að það mundi heimila brottflutning almennra borgara frá Mariupol og Volnovakha frá klukkan 07.00 að ísl. tíma laugardaginn 5. mars.
  • Yfirvöld í Donass-héraði frestuðu brottflutningnum og sökuðu rússneska hermenn um að rjúfa vopnahléið með stórskotaárás á Mariupol.
  • Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að bandalagið mundi ekki lýsa yfir flugbanni yfir Úkraínu, bannið gæti leitt til þess að stríðið næði til annarra Evrópulanda.
  • Zelenskíj Úkraínuforseti sakaði ráðamenn í Moskvu um „alþjóðlegt hryðjuverk“ eftir stórskotaárás á kjarnorkuver.
  • Stórskotaárásin á Zaporizhzhja-kjarnorkuverið skaðaði ekki kjarnakljúfinn og geislavirkni mælist eðlileg. Úkraínumenn sögðu að þrír hefðu fallið í árásinni og tveir særst. Áhyggjum hefur verið lýst vegna öryggis annarra kjarnorkuvera í Úkraínu.
  • Áfram er barist fyrir norðvestan Kyív og harðar árásir voru gerðar á borgirnar Kharkiv og Okhtijrka. Úkraínumenn halda enn Tjernihiv í norðri.
  • Stjórnvöld í Moskvu takmarka enn málfrelsi í viðleitni Pútins til að stjórna miðlun upplýsinga til Rússa frá stríðinu í Úkraínu. Bannað er að nota orð eins „stríð“ og „innrás“ og má fangelsa þá í allt að 15 ár sem fara ekki að lögunum. Hömlur hafa verið settar á aðgang að helstu erlendum fjölmiðlum.
  • Rússneska fjölmiðlaeftirlitið Roskomnadzor lokaði aðgangi að Facebook þar stjórnendur samfélagsmiðilsins höfðu takmarkað aðgang að RT og ríkisreknum rússneskum miðlum.

 

 

Skoða einnig

Herútkall Pútins og kjarnorkuhótun

Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf miðvikudaginn 21. september út fyrirmæli um að kalla út 300.000 varaliða …