Home / Fréttir / Úkraínustríðið: Rússar svíkja fyrirheit um brottflutning fólks

Úkraínustríðið: Rússar svíkja fyrirheit um brottflutning fólks

Myndin er frá Mariupol í Úkraínu og sýnir fólk leita skjóls eftir svik Rússa.

Hlé varð á brottflutningi fólks frá hafnarborginni Mariupol við Azov-haf í Úkraínu laugardaginn 5. mars þegar héraðsyfirvöld í Donbass sökuðu Rússa um að ganga á bak orða sinna um vopnahlé og hefja þess í stað stórskotahríð á flóttaleiðir.

Aðfaranótt laugardagsins fór Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, hörðum orðum um NATO fyrir að hafna ósk sinni um flugbann (e. no-fly zone) yfir land sitt. Sagði forsetinn: „Allir sem deyja frá deginum í dag deyja einnig vegna ykkar.“

Á utanríkisráðherrafundi NATO (með Svíum og Finnum) var föstudaginn 4. mars ákveðið að halda herjum undir fána bandalagsins utan átakanna. Í yfirlýsingu um flugbann af hálfu NATO fælist stríðsyfirlýsing af hálfu varnarbandalagsins.

Þetta gerðist helst í stríðinu í Úkraínu laugardaginn 5. mars:

  • Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að það mundi heimila brottflutning almennra borgara frá Mariupol og Volnovakha frá klukkan 07.00 að ísl. tíma laugardaginn 5. mars.
  • Yfirvöld í Donass-héraði frestuðu brottflutningnum og sökuðu rússneska hermenn um að rjúfa vopnahléið með stórskotaárás á Mariupol.
  • Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að bandalagið mundi ekki lýsa yfir flugbanni yfir Úkraínu, bannið gæti leitt til þess að stríðið næði til annarra Evrópulanda.
  • Zelenskíj Úkraínuforseti sakaði ráðamenn í Moskvu um „alþjóðlegt hryðjuverk“ eftir stórskotaárás á kjarnorkuver.
  • Stórskotaárásin á Zaporizhzhja-kjarnorkuverið skaðaði ekki kjarnakljúfinn og geislavirkni mælist eðlileg. Úkraínumenn sögðu að þrír hefðu fallið í árásinni og tveir særst. Áhyggjum hefur verið lýst vegna öryggis annarra kjarnorkuvera í Úkraínu.
  • Áfram er barist fyrir norðvestan Kyív og harðar árásir voru gerðar á borgirnar Kharkiv og Okhtijrka. Úkraínumenn halda enn Tjernihiv í norðri.
  • Stjórnvöld í Moskvu takmarka enn málfrelsi í viðleitni Pútins til að stjórna miðlun upplýsinga til Rússa frá stríðinu í Úkraínu. Bannað er að nota orð eins „stríð“ og „innrás“ og má fangelsa þá í allt að 15 ár sem fara ekki að lögunum. Hömlur hafa verið settar á aðgang að helstu erlendum fjölmiðlum.
  • Rússneska fjölmiðlaeftirlitið Roskomnadzor lokaði aðgangi að Facebook þar stjórnendur samfélagsmiðilsins höfðu takmarkað aðgang að RT og ríkisreknum rússneskum miðlum.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …