
Blaðamenn þýska vikuritsins Der Spiegel birtu í liðinni viku úttekt sem lýsir tilraunum Rússa til að eyðileggja Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Þeir stundi skemmdarverk innan stofnunarinnar til að hindra að hún geti lagt sitt af mörkum til að tryggja frið og öryggi í Evrópu. Að baki búi viðleitni til að fegra hlut Rússa þrátt fyrir innrás þeirra í Úkraínu.
Rifjað er upp að í mars 2022 hafi rússneskur diplómat minnt starfsbróður sinn frá Litháen á fundi í ÖSE, sem gagnrýndi innrás Rússa, að Rússar gætu teygt sig langt og náð „hverjum sem er, hvar sem er“, þar á meðal diplómötum. Hótaði Rússinn að draga Litháan fyrir rétt í Rússlandi þar sem dæma má þá sem gagnrýna stríðið í allt að 15 ára fangelsi.
Segir í Der Spiegel að þessi orðaskipti séu til marks um átökin sem nú einkenni starfið í ÖSE og ógni tilvist stofnunarinnar að mati sendiherra Úkraínu hjá henni.
Minnt er á að allt starf innan ÖSE sé reist á því að öll aðildarríkin standi að ákvörðunum sem teknar eru í nafni stofnunarinnar. Rússar vilji hins vegar fara eigin leiðir og óttist sum aðildarríki að þeir líti nú á ÖSE sem skjól fyrir undirróðursstarfsemi og njósnir. Opinberlega séu fulltrúar Rússa diplómatar en í raun sé um njósnara að ræða.
Aðildarríki ÖSE eru nú 57, 55 ríki í Evrópu og Bandaríkin og Kanada. Hlutverk ÖSE er að „koma í veg fyrir átök“ og „stjórn á hættutímum“ (e. crisis management). Þegar eitt aðildarríki stundar innrásarstríð hafa þessi orð litla merkingu.
Höfuðstöðvar ÖSE eru í Vínarborg. Auk stjórnarskrifstofu þar sem fastafulltrúar ríkjanna koma að yfirstjórn senda þjóðþing aðildarríkjanna fulltrúa á ÖSE-þingið. Meirihluti 3.500 starfsmanna á vegum ÖSE eru þó í Suðaustur-Evrópu, Austur-Evrópu, Suður-Kákasus og Mið-Asíu. Þeir þjálfa opinbera starfsmenn, fylgjast með kosningum og aðstoða við friðarviðræður. Frá því að Rússar hernámu Krímskaga 2014 hafa stundum meira en 1.000 ÖSE-starfsmenn verið í Úkraínu. Þeir hafa fylgst með framkvæmd vopnahléa og fangaskiptum. Öllu þessu starfi var hætt eftir að Rússar réðust inn í landið 24. febrúar 2022.
Síðan hafa Rússar beitt neitunarvaldi gegn ýmsum ákvörðunum á vettvangi ÖSE, til dæmis gegn því að Eistlendingar yrðu í formennsku ráðherraráðsins árið 2024. Þá hafa Rússar að mestu hætt að greiða aðildargjöld sín. Þar skulda þeir nú meira en 10 milljón evrur.
Fyrir utan ögranir á pólitískum vettvangi ÖSE hafa Rússar einnig ögrað starfsmönnum stofnunarinnar úti á vettvangi, meðal annars tekið þrjá gísla. Voru þeir við gæslustörf í austurhluta Úkraínu og féllu í hendur rússneska heraflans þar. Þykir öfugmæli að Rússar taki þá í gíslingu sem starfa á vegum stofnunar þar sem Rússar eiga aðild og geta beitt neitunarvaldi.
Óvíst er hve lengi starfsemi ÖSE verði fram haldið en upphaf samstarfsins má rekja til fundar í Helsinki 1975 þar sem samþykkt var yfirlýsing um að minnka spennu og stuðla að viðræðum milli austurs og vesturs.
.