Home / Fréttir / Úkraínustjórn reisir landamæragirðingu og grefur skriðdrekaskurði gagnvart Rússlandi

Úkraínustjórn reisir landamæragirðingu og grefur skriðdrekaskurði gagnvart Rússlandi

Landamæragirðing Úkraínumanna gagnvart Rússlandi
Landamæragirðing Úkraínumanna gagnvart Rússlandi

Ríkisstjórn Úkraínu hóf undir lok ársins 2014 að reisa landamæragirðingu á milli Úkraínu og Rússlands auk þess að gera hindranir við landamæri til að tefja eða jafnvel hindra að skriðdrekar komist yfir landamærin. Girðingin mælist mjög illa fyrir meðal rússneskra ráðamanna. Formaður utanríkismálanefndar rússneska þingsins segir að um „smánarmúr“ sé að ræða.

Rússneska fréttastofan Sputnik sem miðlar áróðri fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta og stjórn hans vitnar föstudaginn 7. ágúst í færslu sem Alexei Pushkov, formaður utanríkismálanefndar rússneska þingsins, setti á Twitter-síðu sína þar sem segir: „Hinn ókleifi veggur sem [forsætisráðherra Úkraínu Arseníj] Jatsenjuk lætur nú reisa hefur alltaf falið í sér smán og vestrið samþykkti að greiða kostnaðinn við þennan skurð.“

Á sputniknews.com segir að ríkisstjórn Úkraínu vilji með girðingunni einangra landið frá Rússlandi, hún sé risastór og við hlið hennar séu skurðir til að stöðva skriðdreka og á girðingunni séu fjarstýrð vopnakerfi. Verkefnið hafi verið kallað „Múrinn“ eða „Evrópski virkisveggurinn“.

Sagt er að alls kosti 200 milljón dollara að reisa girðinguna en með jöfnu millibili séu þar 17 m háir stálturnar. Skriðdreka-skurðirnir eru fjögurra metra breiðir og tveggja metra djúpir. Við girðinguna er akbraut lögð sandi og er hún slóðdregin reglulega svo að sjá megi hvort einhver stigi inn á hana. Eftirlitsmyndavélar og fjarstýrð vopnakerfi auðvelda landamæravörðum störf sín.

Þegar forsætisráðherra Úkraínu kynnti hinn nýja búnað til landamæravörslu í desember 2014 sagði hann að það tæki um fjögur ár að girða öll landamærin gagnvart Rússlandi.

Sameiginleg landamæri Rússland og Úkraínu eru um 2.300 km löng þar af næstum 1.975 km á landi.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …