Home / Fréttir / Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Kona greiðir atkvæði undir mynd af Pútín á hernumdu svæði í Donetsk í Úkraínu laugardaginn 9. seprember 2023.

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum svæðum þeirra í Úkraínu dagana 8. til 10. september 2023. Þá hafa stjórnir lýðræðisríkja sagt að um „gervi-kosningar“ hafi verið að ræða á svæðum sem hafi verið hernumin í trássi við lög og rétt. ESB sendi stjórn Rússlands einnig viðvörun um að það drægi dilk á eftir sér fyrir þá sem tóku þátt í að skipuleggja „ólöglegu“ kosningarnar í Úkraínu.

Á vefsíðu RFE/RL birtist föstudaginn 15. september frásögn af þátttöku erlendra manna í framkvæmd kosninganna, en tveir Íslendingar sinntu þar „eftirliti“, Konráð Magnússon meindýraeyðir og Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.

Fréttamaður RFE/RL beinir athygli sinni að Serbum sem einnig fylgdust með kosningunum og nefnir til sögunnar Goran Simpraga frá Belgrad. Hann kallar sig blaðamann og framleiðanda en stjórnar miðli hliðhollum Kremlverjum og sér ekkert athugavert við að hafa lagt Rússum lið vegna kosninganna.

Hann segist hafa tekið þátt í fundi með „alþjóðlegum sérfræðingum“ undir forystu Ellu Pamfilovu, formanni rússnesku landskjörstjórnarinnar.

Simpraga birti einnig fimm mínútna langt myndskeið þar sem hann fór lofsamlegum orðum um kosningarnar. Sagði hann meðal annars að þær hefðu verið skipulagðar „í samræmi við alþjóðlegar kröfur“.

„Þegar ég tala um þessar kosningar finnst mér að Rússar séu ein fárra þjóða sem hafi getu til að skipuleggja slíkar kosningar,“ sagði hann og við hlið hans sat samlandi hans frá Serbíu, Goran Petronijevic.

Goran Petronijevic var dómari í fyrrum Júgóslavíu þegar serbneski foringinn Slobodan Milosevic stjórnaði landinu. Hann var ákærður fyrir sakamáladómstóli SÞ áður en hann dó árið 2006. Petronijevic var einnig lögmaður í stríðsforingja Bosníu-Serba, Radovans Karadzic, og fleiri sem voru dæmdir fyrir stríðsglæpi í Haag.

Þriðji Serbinn sem stóð yfir ólöglegu kosningum Rússa er Srdjan Perisic, prófessor í heimspeki og fyrrverandi ráðgjafi Pútíns og bandamaður Milorads Dodiks sem er nú forseti aðskilnaðarhéraðsins sem kallast Lýðveldið Srpska. Að baki því eru Serbar sem eru stærsta þjóðarbrotið sem myndar sambandsríkið Bosníu-Herzegovínu með Bosníumönnum og Króötum.

Þessir þrír Serbar sem voru á hernumdu svæðunum í Úkraínu á sama tíma og Konráð Magnússon og Erna Ýr Öldudóttir eru allir yfirlýstir og alkunnir stuðningsmenn Pútíns í viðleitni Kremlverja til að koma ár sinni fyrir borð í Balkanríkjunum þar sem serbneskir embættismenn undir forystu Aleksandars Vucic forseta hafa gagnrýnt vestrænar ríkisstjórnir fyrir refsiaðgerðir gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

RFE/RL segir óljóst hvert hafi verið alþjóðlegt umboð Serbanna þriggja til að starfa við kosningaeftirlit.

Hafi þeir verið á vegum kosningaeftirlitsskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) hefðu þeir þurft samþykki serbneska utanríkisráðuneytisins að sögn samtaka lýðræðissinna í Belgrad. ÖSE sendi hins vegar hvorki fulltrúa til að fylgjast með héraðs- og sveitarstjórnarkosningum í Rússlandi, þar sem flokkur Pútíns, Sameinað Rússland, sigraði né til að fylgjast með kosningunum sem Rússar settu á svið á hernumdum svæðum Úkraínu.

Sendiráð Úkraínu í Belgrad sagði í tilkynningu miðvikudaginn 13. september að efnt hefði verið til „blekkingarkosninga“ á hernumdu svæðum Úkraínu, þær væru marklausar og nytu „ekki viðurkenningar alþjóðasamfélagsins“. Þær væru ekki annað en „enn ein tilraun Kremlverja til að réttlæta innrás sína, tilraun til innlimunar og til að ná með hervaldi tímabundnum ráðum yfir hluta fullvalda og sjálfstæðs Evrópuríkis, Úkraínu“.

Sendiráðið nafngreindi Petronijevic, Simpraga og Perisic og sagði: „Einstaklingar sem áttu hlut að því að framkvæma þessar svikakosningar, þeirra á meðal forystumenn Rússneska sambandsríkisins, fulltrúar hernámsyfirvaldanna og kjörstjórna og áróðursmeistarar þeirra verða látnir svara til saka.

Úkraínustjórn mun einnig vinna að því að kynna nýjar alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn þeim sem eiga hlut að máli.“

 

Heimild: RFE/RL

 

 

Skoða einnig

Rússar senda liðsauka til úrvinda hersveita í suðaustur Úkraínu

Rússar flytja nú aukinn herafla til suðausturhluta víglínunnar í stríðinu við Úkraínu og bregðast á …