Home / Fréttir / Úkraínumenn staðfesta einhug sinn gegn Rússum

Úkraínumenn staðfesta einhug sinn gegn Rússum

Að morgni 16. febrúar 2022 fóru þúsundir Úkraínumanna með þjóðfána sinn i samstöðugöngu.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, sagði miðvikudaginn 16. febrúar að hann hefði ekki séð nein merki um að rússneskir hermenn væru á leið frá landamærum Úkraínu.

Fréttamaður BBC, breska ríkisútvarpsins, ræddi við forsetann í herstöð í vesturhluta Úkraínu og sagði hann: „Við sjáum ekki neina fækkun hermanna enn þá, við höfum aðeins heyrt um hana. Ég held að allt venjulegt fólk búist við minnkandi spennu.“

Rússar lýstu því á hinn bóginn yfir að heræfingum þeirra á Krímskaga væri lokið að hermenn væru á leið til búða sinna. Í sjónvarpi mátti sjá myndir sem sýndu herlið á leið yfir brú sem tengir skagann við meginland Rússlands.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, tók undir efasemdir Úkraínuforseta og sagðist ekki hafa séð neitt sem sýndi Rússa fækka í liði sínu við landamæri Úkraínu.

Þegar upplýsingar birtust í liðinni viku að Rússar ráðgerðu innrás í Úkraínu 16. febrúar ákvað Zelenskíj forseti að hvetja íbúa Úkraínu til að halda daginn hátíðlegan sem dag einingar gegn árás Rússa. Úkraínumenn væru einhuga um eitt: að búa við frið og hamingju.

Forsetinn ávarpaði þjóð sína að morgni 16. febrúar og hvatti hana til dáða. Hún yrði að standa saman um að vernda ættjörð sína og heimili – og henni mundi takast það sýndi hún einhug.

Hann hvatti til þess að fáni Úkraínu yrði dreginn að húni um land allt og þjóðin sameinaðist með því taka öll undir þjóðsönginn klukkan 10.00 að morgni.

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …