Home / Fréttir / Úkraínumenn segja Rússa sviðsetja drónaáras á Kremlarkastala

Úkraínumenn segja Rússa sviðsetja drónaáras á Kremlarkastala

Myndin á að sýna þegar dróni er skotinn niður yfir Kremlarkastala.

Rússnesk stjórnvöld segja að „morðtilraun“ Úkraínumanna gegn Vladimir Pútin Rússlandsforseta hafi misheppnast þegar drónar voru skotnir niður yfir Kremlarkastala í Moskvu aðfaranótt miðvikudags 3. maí. Um „hryðjuverk“ hafi verið að ræða.

Úkraínumenn neita allri aðild að atvikinu og segja að drónaárásin sé sviðsett í blekkingarskyni. Volodymyr Zelkenskíj sagði á blaðamannafundi 3. maí í Helsinki, höfuðborg Finnlands: „Við ráðumst hvorki á Pútin né Moskvu, við berjumst á okkar eigin landi.“

Vladimir Pútin var ekki í Kremlarkastala á þeim tíma sem árásin á að hafa verið gerð. Dmitríj Peskov, talsmaður forsetans, sagði hann hafa verið við störf í Novo-Ogarjovo aðsetri sínu.

Birtar hafa verið myndir í sjónvarpi sem eiga að sýna þegar dróna var grandað yfir Kremlarkastala og hann fellur logandi til jarðar. Athygli vekur að rússnesk yfirvöld skýrðu ekki frá atvikinu fyrr en um 12 klukkustundum eftir að það á að hafa gerst. Vestrænar fréttastofur hafa ekki getað sannreynt hvað gerðist.

Mykhailo Podoljak, ráðgjafi Úkraínuforseta, hafnaði nokkurri aðild Úkraínumanna. „Úkraínumenn eiga enga aðild að drónaárás á Kreml,“ sagði hann. Fullyrðingar um aðild þeirra væri fyrirsláttur af hálfu Rússa „til að réttlæta þungar árásir á bæi og borgir í Úkraínu, á almenna borgara og grunnvirki“ næstu daga.

Forseti rússneska þingsins hvatti til þess að gert yrði úit af við forystusveit Úkraínu.

Væru fullyrðingar Peskovs réttar jafngilti það umtalsverði stigmögnun á stríðsátökunum í Úkraínu sem nú hafa staðið í 14 mánuði. Úkraínumenn hefðu fært átökin inn í höfuðstöðvar rússneskra stjórnvalda.

Í tilkynningu frá Kreml sagði að rússneski herinn og öryggissveitir hefðu stöðvað drónana áður en þeir ollu tjóni og enginn hefði slasast.

Volodymyr Zelenskíj var í Helsinski í boði Saulis Niinistös Finnlandsforseta og til að sitja fund með norrænu forsætisráðherrunum fimm, þeirra á meðal Katrínu Jakobsdóttur.

Fréttaskýrendur segja að mikil öryggisgæsla sé vegna allra ferða Pútins og Zelenskíjs. Bent er á að sé þessi frásögn um árásina á Kremlarkastala rétt sýni hún ótrúlega gisið öryggisnet í kringum Pútin, sé unnt að skjóta drónum yfir sjálfan Kremlarkastala áður en þeim sé grandað.

Myndskeiðið af logandi drónanum birtist fyrst á Telegram-fréttarás í Moskvu.Tvær myndir eru teknar handan árinnar sem rennur við Kremlarkastala, önnur sýnir logandi dróna á lofti og hin reyk rísa upp frá kastalanum.

Í texta sem fylgdi myndskeiðinu sagði að íbúar í nálægu fjölbýlishúsi hefðu heyrt hvelli og séð reyk um klukkan 02.30 að staðartíma, um 23.30 að ísl. tíma að kvöldi þriðjudags 2. maí.

Talsmenn Kremlverja sögðu að árásinni væri ætlað að spilla fyrir hátíðarhöldum í Moskvu á sigurdeginum, þriðjudaginn 9. maí, sem haldinn er til að minnast sigurs Sovétmanna á Þýslandi nazista árið 1945.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …