
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði aðfaranótt föstudags 11. nóvember að allir rússneskir hermenn hefðu verið fluttir á brott frá héraðshöfuðborginni Kerson í suðurhluta Úkraínu. Skömmu síðar bárust fréttir um að hermenn Úkraínustjórnar hefðu þegar sótt inn í úthverfi borgarinnar.
Rússnesku hermennirnir fóru til austurs yfir Dnipró ána sem rennur við borgina. Samhliða fréttum um brottflutning rússnesku hermannanna birtust myndir sem sýndu að Antonivskyií brúin, eina nálæga brúin sem tengir Kerson og austurbakka árinnar þar sem Rússar eru nú, er hrunin.
Úkraínumenn vara við því að rússneski herinn kunni að hafa breytt Kerson í „borg dauðans“ með jarðsprengjum. Þar kunni að verða miklar sprengingar í lykilmannvirkjum þegar úkraínskir hermenn halda inn í borgina.
Af opinberri hálfu segja Úkraínumenn ekkert um gang mála af ótta við að hvað eina sem frá þeim komi kunni að gagnast Rússum. Þá er ástandið þannig að fréttamönnum er haldið í fjarlægð og þess vegna er erfitt sð fá staðfestar fréttir af framvindu mála. Talið er að tugir þúsunda almennra borgara séu enn í felum eða í skjóli í borginni, íbúar hennar voru 280.000 þegar Rússar gerðu innrásina 24. febrúar 2022.
Nái Úkraínumenn borginni á sitt vald kunna þeir að nota hana sem „stökkpall“ fyrir hermenn og birgðalestir við frekari sókn suður á bóginn og jafnvel inn á Krímskaga sem Rússar hernámu árið 2014.
Her Úkraínumanna sækir úr öllum áttum að Kerson og leggur héraðið undir sig skref fyrir skref en 30. september lýsti Vladimir Pútin Rússlandsforseti yfir innlimun Kerson héraðs í Rússland.
Í daglegu ávarpi sínu að kvöldi fimmtudags 10. nóvember sagði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti að hraði hers Úkraínu væri svo mikill á þessum slóðum að íbúar þar litu næstum á klukkustundar fresti eftir því hvort úkraínskir hermenn hefðu reist fána Úkraínu í byggð sinni til marks um árangur sóknar sinnar.
Valerij Zalusjnij, yfirmaður hers Úkraínu, sagði að herinn undir hans stjórn hefði sótt fram um 36,5 km og endurheimt 41 þorp og bæi frá 1. október í þessu héraði. Miðvikudaginn 9. nóvember náði herinn 12 byggðum á sitt vald.
Fréttastofan Euronews vitnar í einstaklinga sem hafa flúið Kerson en eiga þar enn skyldmenni eða vini. Einn sagði að afi hans og amma sem enn eru í borginni hefðu séð rússneska hermenn flytja mikið af tækjum inn í borgina og þeir hefðu þéttraðað sprengjum um hana.
Annar sem flúði borgina 10. nóvember sagði að hún virtist sem mannauð, hlé hefði orðið á öllu daglegu lífi. Fólk væri í felum einhvers staðar og enginn vissi hvað gerðist næst.
Hann sagði að rússneski fáninn hefði horfið af opinberum byggingum og hvergi sæist rússneskur hermaður en þeir hefðu áður búið um sig í yfirgefnum heimilum þeirra sem þvingaðir voru til brottflutnings,
Rússneska ríkisfréttastofan TASS sagði að starfsmenn neyðarþjónustu og lögreglumenn mundu hverfa á brott með rússneska hernum.
Að kvöldi fimmtudags 10. nóvember sagði Zelenskíj að her stjórnar hans ynni að því að hreinsa með hraði jarðsprengjur af 170.000 fermetra svæði um landið allt og það yrði einnig gert í Kerson.