
Riho Terras er eistlenskur stjórnmálamaður sem áður var hershöfðingi og æðsti yfirmaður hers Eistlands. Hann hefur setið á þingi ESB frá 1. febrúar 2020. Hann fór með stjórn hers Eistlands frá 2011 til 2018.
Sunnudaginn 27. nóvember birtist viðtal við Terras á vefsíðu Radio Free Europe/Radio Liberty (RFE/RL) eftir Vazha Tavberidze. Hér er stuðst við viðtalið.
Terras er spurður hvort honum þyki líklegt að Rússar ráðist inn á landsvæði NATO-ríkis og auki hættu á að stækka átakasvæðið.
Terras bendir á að enginn hafi í raun haldið að sjálfseyðingarhvöt Rússa væri svo mikil að þeir sæktu með her sinn úr fimm ólíkum áttum inn í Úkraínu. Þeir kynnu kannski að sækja inn í austurhluta landsins, ef til vill í áttina að Kherson en allir sem kynnu að lesa eða reikna hafi verið fullvissir um að þeir mundu ekki ráðast á Kyív – en þeir gerðu það samt.
Nú sé ástæða til að spyrja; Hvað ætla þeir langt? Herfræðingar mundu segja: Ekki lengra. Það sé hvorki rökrétt né hægt að fara lengra. Þeir sögðu þetta sama þegar þeir sáu rússneska herinn í upphafi innrásarinnar. Hann sótti samt fram.
Terras er þá spurður hvers vegna Pútin hafi ákveðið að hefja allsherjarinnrás. Hver hafi verið hugsun herfræðinga hans.
Terras segir að Pútin hafi líklega talið að sér yrði fagnað sem „frelsara“ af Úkraínumönnum. FSB-valdaklíkan [FSB: rússneska öryggislögreglan] í kringum Pútin hélt að litið yrði á rússneska herinn sem frelsisher. Þeir hafi undrast mjög að sama gerðist ekki í Kyív og á Krímskaga 2014 þegar Pútin innlimaði hann. Þessi klíka veiti Pútin ekki endilega ígrunduð ráð heldur mati hann á því sem hún haldi að hann vilji heyra.
Nú sé svo komið að öflugasti her Evrópu sé í Úkraínu, jafnvel í samanburði við Rússa. Þess vegna verði að útvega Úkraínuher árásarvopn svo að hann getið frelsað öll hernumdu svæðin í Úkraínu.
Blaðamaðurinn segist vita að Terras sé sannfærður um að Úkraínumenn vinni stríðið og spyr hvernig hann sjái fyrir sér að það gerist.
Terras segir að næst eigi Úkraínumenn að einbeita sér að ná Melitopol, annarri stærstu borginni á valdi Rússa í Zaporizhzhja-héraði.
Næst eigi þeir að ná Donetsk og Luhansk á sitt vald. Tækju þeir Donetsk yrði það annar sigur á borð við Kherson-sigurinn. Í því fælist yfirlýsing um að Úkraínumenn ætluðu ekki aðeins að endurheimta það sem Rússar hafa lagt undir sig síðan 24. febrúar 2022 heldur allt land sitt úr höndum Rússa.
Í Donbas séu mjög dýrmæt jarðefni, þar á meðal mest af lítín (e. lithium) í Evrópu, fjórða mesta magn í heimi.
Hann segir að um þessar mundir séu ekki margir sem telji að Úkraínuher geti náð þessu svæði, hann segist hins vegar trúa því.
Blaðamaðurinn spyr hvernig Úkraínuher geti hrakið her Rússa frá Donetsk, hernum hafi mistekist það til þessa.
Terras segir að Úkraínumenn verði að beita sömu aðferðum og til þessa, miklum aga og góðri herstjórn á öllum stigum. Þar hafi þeir yfirburði gagnvart Rússum sem skorti mjög góða stjórnendur. Þar séu óvanir háskólanemar án allrar reynslu af hernaði settir í foringjastöður.
Í her Úkraínu fái hermenn hins vegar þjálfun utan lands síns innan ESB [og í Bretlandi]. Stefnt sé að því að allt að 15.000 manns fái þessa þjálfun. Úkraínumenn beiti einnig aðferðum sem komi Rússum í opna skjöldu, til dæmis þegar þeir náðu Kharkiv á sitt vald.
Blaðamaðurinn spyr hvort Rússar nái árangri með því að sprengja grunnvirki í því skyni að þrengja að almennum borgurum í Úkraínu og gera þeim lífið sem óbærilegast.
Terras segir að þessar árásir hafi mikil áhrif á Úkraínumenn. Þeir hati Rússa nú jafnvel meira en áður. Rússar hafi gjörsamlega misreiknað sig í þessu eins og flestu öðru. Hvergi sjáist merki um að Úkraínumenn glati trausti á eigin stjórn vegna árása Rússa. Kannanir sýni það ekki heldur.
Joe Biden Bandaríkjaforseti átti sig á því að ekki sé til neins að tala um samninga við Rússa án þess að Úkraínumenn hafi þar forystu, enginn geti neytt Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta til friðarviðræðna því að það yrði örugglega banabiti hans í Úkraínu.
Allir verði að átta sig á þeim mikilvæga hlut – sem Vestrið geri ekki – að hvað sem líði þeirri skoðun að Rússar hafi úthald, að Rússar geti þjáðst og sigrað vegna þess að þeir gerðu það í annarri heimsstyrjöldinni, séu Úkraínumenn einnig búnir þessum kostum. Og það geri gæfumuninn: Þeir séu ekki „veiklundaðir í vestri“ eins og Pútin orðar það heldur harðgerðir bardagamenn.
Terras segir að það verði að veita Úkraínumönnum alla nauðsynlega hernaðarlega aðstoð og bætir við:
„Ég sé Rússa ekki sem sigurvegara, Úkraínumenn hafa þegar sigrað, jafnvel þótt þeir missi landsvæði – þeir eru í sambærilegri stöðu og Finnar árið 1939, í Vetrarstríðinu, þegar þeir urðu að láta Karelíu af hendi en héldu sjálfstæði sínu.
Úkraínumenn hafa þegar unnið sjálfstæðisstríðið. Nú er spurningin hvort okkur tekst að láta Rússa tapa og það er annað skref sem við verðum að taka. Evrópubúar verða að skilja að einnar til þriggja gráðu minni hiti í skrifstofum þeirra eða heimilum getur bjargað úkraínskum mannslífum.“