Úkraínumenn búa sig undir að Rússar geri á þá stórárás á skotmörk hvarvetna í landi þeirra, þar á meðal Kyív, næstu daga þegar Moskvuvaldið minnist þess að eitt ár er liðið frá því að innrásin í Úkraínu hófst.
Að kvöldi sunnudags 5. febrúar sagði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti í daglegu ávarpi til þjóðar sinnar að Rússar hefðu sent fleiri hermenn en áður á vígvöllinn.
„Við sjáum aukinn þrýsting á ýmsum stöðum við víglínuna og einnig er sótt harðar fram i upplýsingastríðinu,“ sagði forsetinn.
„Ástandið er mjög erfitt a Donetsk svæðinu – þar er barist af hörku. En það er sama hve harkan er mikil og hve miklum þrýstingi er beitt, við höfum staðist áhlaupið.“
Rússneskir embættismenn segja hins vegar að Úkraínumenn undirbúi „ögrun“ með „blekkingarleik“ við borgina Kramatorsk norðurhluta Donetsk héraðs.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að Úkraínuher undirbyggi árás á sjúkrastofnanir í borginni og síðan kenna Rússum um að hafa framið stríðsglæp.
Vestrænum ríkjum sem ætla að senda vopn til Úkraínu fjölgar. Bandaríkjstjórn hefur nú ákveðið að senda háþróaðar stýriflaugar og loftvarnakerfi til landsins.
Frakkar og Ítalir ætla í vor að senda SAMP/T loftvarnakerfi.
Fyrsta Leopard 2 skriðdrekanum frá Kanada var ekið um borð í flutningavél á kandadískum herflugvelli.