Stjórnvöld Úkraínu hafa ákveðið að beita herlögum landsins á þann veg að banna rússneskum karlmönnum á aldrinum 16 til 60 ára að koma inn í Úkraínu. Frá þessu var skýrt föstudaginn 30. nóvember. Ákvörðunin er til marks um stigmögnun spennu vegna hertöku Rússa á þremur eftirlitsbátum Úkraíniu og handtöku 22 manna í áhöfnum þeirra.
Skömmu eftir að þetta var tilkynnt sögðu Rússar að þeir ætluðu ekki að svara með sambærilegu banni.
Þá gripu stjórnvöld í Úkraínu til þess ráðs að gera húsleit heima hjá presti rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, séra Pavlov. Hann er yfirmaður Petsjersk-klaustursins í Kænugarði og er grunaður um að „ýta undir hatur“.
Rétttrúnaðarkirkjur Úkraínu og Rússlands hafa verið sameinaðar öldum saman. Úkraínumenn segjast hins vegar vilja draga skil á milli sín og Rússa að þessu leyti og jafnvel slíta sambandi kirknanna að fullu og öllu.
Lýst hefur verið herlögum í 30 daga í 10 héruðum Úkraínu sem eiga land að Rússlandi, Svartahafi og Azovhafi.
Rússar hafa haft þrjú eftirlitsskip Úkraínu í haldi frá sunnudegi 25. nóvember. Skipin voru stöðvuð þegar þau reyndu að sigla um Kerch-sund sem tengir Azovhaf við Svartahaf.
Um borð í skipunum voru 22 sjóliðar og hafa nokkrir þeirra þegar verið kallaðir fyrir rússneska dómara án þess að njóta aðstoðar sjálfstæðra lögfræðinga.