Home / Fréttir / Úkraínumenn beita herlögum gegn komu Rússa til lands síns

Úkraínumenn beita herlögum gegn komu Rússa til lands síns

46445780_7

Stjórnvöld Úkraínu hafa ákveðið að beita herlögum landsins á þann veg að banna rússneskum karlmönnum á aldrinum 16 til 60 ára að koma inn í Úkraínu. Frá þessu var skýrt föstudaginn 30. nóvember. Ákvörðunin er til marks um stigmögnun spennu vegna hertöku Rússa á þremur eftirlitsbátum Úkraíniu og handtöku 22 manna í áhöfnum þeirra.

Skömmu eftir að þetta var tilkynnt sögðu Rússar að þeir ætluðu ekki að svara með sambærilegu banni.

Þá gripu stjórnvöld í Úkraínu til þess ráðs að gera húsleit heima hjá presti rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, séra Pavlov. Hann er yfirmaður Petsjersk-klaustursins í Kænugarði og er grunaður um að „ýta undir hatur“.

Rétttrúnaðarkirkjur Úkraínu og Rússlands hafa verið sameinaðar öldum saman. Úkraínumenn segjast hins vegar vilja draga skil á milli sín og Rússa að þessu leyti og jafnvel slíta sambandi kirknanna að fullu og öllu.

Lýst hefur verið herlögum í 30 daga í 10 héruðum Úkraínu sem eiga land að Rússlandi, Svartahafi og Azovhafi.

Rússar hafa haft þrjú eftirlitsskip Úkraínu í haldi frá sunnudegi 25. nóvember. Skipin voru stöðvuð þegar þau reyndu að sigla um Kerch-sund sem tengir Azovhaf við Svartahaf.

Um borð í skipunum voru 22 sjóliðar og hafa nokkrir þeirra þegar verið kallaðir fyrir rússneska dómara án þess að njóta aðstoðar sjálfstæðra lögfræðinga.

 

Skoða einnig

Norski varðskipaflotinn endurnýjaður

Skrokkurinn af KV Hopen, þriðja nýja ísstyrkta varðskipi Norðmanna, var dreginn til Vard Langsten skipasmíðastöðvarinnar …