
Bandarísk yfirvöld hafa að sögn New York Times (5. október) komist að þeirri niðurstöðu að samþykki hafi legið fyrir frá Úkraínu áður rússneski þjóðernissinninn Darja Dugina (29 ára) var myrt fyrir utan Moskvu í ágúst.
Bifreið sem hún ók var sprengd í loft upp og að sögn blaðsins er það skoðun bandarískra leyniþjónustustofnana að það hafi verið gert með samþykki einhverra innan ríkisstjórnar Úkraínu.
Bílsprengjan sprakk 20. ágúst fyrir utan Moskvu. Dugina var blaðamaður og virk í stjórnmálastarfi. Í NYT segjast bandarískir embættismenn ekki vita um hvað lá að baki árásinni á Duginu.
Heimildarmenn blaðsins telja að faðir hennar, Aleksander Dugin, kunnur rússneskur, þjóðernissinnaður hugmyndafræðingur, hafi í raun verið skotmarkið. Hann ákvað við brottför dóttur sinnar frá sameiginlegri athöfn sem þau sóttu að aka ekki með henni í bílnum sem var hans.
Fullyrt er að Bandaríkjamenn hafi ekki átt neina aðild að morðinu hvorki með miðlun leynilegra upplýsinga eða ánnan hátt. Bandarískir embættismenn hafi ekki verið upplýstir um neinar ráðagerðir í þessu sambandi, þeir hefðu lagst gegn árásinni hefði verið leitað álits þeirra. Eftir verknaðinn hefði verið fundið að honum við úkraínska embættismenn.
NYT segir að niðurstaðan leyniþjónustustofnananna hafi verið kynnt bandarískum ráðuneytismönnum í liðinni viku. Strax eftir að árásin var gerð birtu Úkraínumenn opinbera yfirlýsingu um að þeir hefðu hvergi komið þarna nærri. Þegar háttsettir Úkraínumenn voru spurðir um bandarísku niðurstöðuna endurtóku þeir fyrri yfirlýsingar um að ekki hefði verið um nein opinber úkraínsk afskipti af morðinu að ræða.