Home / Fréttir / Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Rússneskas skotflaugaskipið Serpukhov.

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á Svartahafi. Þar er um að ræða litla eftirlitsbáta og allt að 186 m löng flugskeytabeitiskip. Nú sækir herinn að sögn gegn rússneskum herskipum á Eystrasalti.

Á Svartahafi hefur verið herjað á rússnesk herskip frá sjó og úr lofti með drónum og flugskeytum. Á Eystrasalti virðist árásin hafa verið gerð um borð í skipinu sjálfu.

Nýtt myndskeið frá njósnastofnun hers Úkraínu, HUR, sýnir eld gjósa upp í skipinu miðju.

Þar er um að ræða meðalstóra herskipið Serpukhov sem notar Kaliningrad, rússnesku hólmlenduna við Eystrasalt, sem heimahöfn.

Á myndskeiðinu er sýnd teikning af skipinu þar sem rauð strik eru um miðrými  þess.

Skipinu var ekki sökkt en Úkraínumenn segja að stjórn- og fjarskiptabúnaður þess hafi gjöreyðilagst í eldinum.

Úkraínumenn hafa áður ráðist með drónum á rússnesk gas- og olíuvirki við Eystrasalt.

Séu fréttir um árásina á rússneska herskipið réttar er um nýtt skref í stríðinu að ræða.

Serpukhov er tiltölulega nýtt skotflaugaskip. Það var sjósett árið 2015 og því var fyrst haldið úti í rússneska Svartahafsflotanum. Frá 2016 hefur það hins vegar verið í rússneska Eystrasaltsflotanum í Kaliningrad.

Skipið er 74 m langt og þar er unnt að koma fyrir átta Onyx-skotflaugum gegn óvinaskipum eða átta Kalibr-stýriflaugum sem má hugsanlega skjóta á skotmörk í Úkraínu.

Skipið hefur ekki verið notað enn í Úkraínustríðinu en njósnir Úkraínuhers benda til að skipið yrði ef til vill sent aftur í Svartahaf til að koma í stað allra rússnesku skipanna sem sökkt hefur verið þar.

Tyrkir hafa ekki leyft rússneskum herskipum að fara um Bosporus-sund, úr Miðjarðarhafi inn á Svartahaf, síðan Rússar réðust inn í Úkraínu.

Andrij Jusov, talsmaður HUR, segir að á hinn bóginn megi koma skipum til Svartahafs eftir öðrum leiðum en um þetta sund þótt það sé flókið.

Úkraínumenn segja ekki hvernig staðið var að árásinni. Þeim kann að hafa tekist að lauma manni um borð eða fá einhvern úr áhöfninni til að kveikja í skipinu. Oft hefur verið kveikt í rússneskum járnbrautum eða stjórnstöðvum undanfarið.

Talið er ólíklegt að Rússum takist að finna varahluti til að gera við skipið.

Rússnesk yfirvöld hafa ekki sagt neitt í tilefni fullyrðinga um þessa árás á herskip þeirra við Eystrasalt. Ekki hefur heldur verið sagt frá henni í stærri fjölmiðlum í Rússlandi.

Rússneska staðarblaðið í Kaliningrad, NIA Kaliningrad, segir að um lygafréttir sé að ræða. Dag skemmdarverksins hafi verið æfing gegn skemmdarverkum í flotastöðinni í Kaliningrag sem sé heimahöfn Serpukhov.

 

Heimild: Berlingske

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …