Home / Fréttir / Úkraínuher sækir fram við Bakhmut – Prigosjín Wagner-foringi ögrar Shoigu varnarmálaráðherra

Úkraínuher sækir fram við Bakhmut – Prigosjín Wagner-foringi ögrar Shoigu varnarmálaráðherra

Hermenn Úkraínu við fallbyssu hjá Bakhmut.

Úkraínuher hefur „þegar brotist í gegnum víglínur Rússa í Bakhmut“ og gagnsókn Úkraínumanna er „hafin af fullum krafti“ segir Jevgeníj Prigosjín, foringi Wagner-málaliðanna sem barist hafa undir merkjum Rússa. Það versta sem gæti gerst blasir nú við hersveitum Pútins Rússlandsforseta að mati Prigosjíns sem hæðist jafnframt að Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa.

„Ástandið á jöðrunum er að verða eins og því var spáð verstu,“ sagði Prigosjín föstudaginn 12. maí og boðaði nýjar hörmungar fyrir her Pútins,

„Nú er kastað á brott svæðum sem náðust á mörgum mánuðum með blóði og lífi vopnabræðra okkar sem börðust dag hvern, þau eru tugir þúsundir metra á stærð og óvinurinn fær þau næstum átakalaust frá þeim [rússnesku hermönnum] sem ætlað er að verja jaðra okkar.“

Prigosjín beindi orðum sínum að Shoigu og spurði kaldhæðnislega:

„Með vísan til ofurlangrar reynslu þinnar, viltu vinsamlega koma til Bakhmut?“  Varnarmálaráðherrans er verkfræðingur að mennt.

Fimmtudaginn 11. maí vildi Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti slá á væntingar um að verið væri að hrekja Rússa á bak aftur í Bakhmut þegar hann sagði að gagnsókn Úkraínuhers, sem lengi hefur verið beðið, hæfist ekki af þunga strax: „Við þurfum dálítið meiri tíma,“ sagði forsetinn, enn væri beðið eftir hergögnum, meðal annars brynvögnum, þolinmæði væri nauðsynleg til að minnka mannfall.

Prigosjín brást við þessum orðum forsetans með því að segja Zelenskíj reyna að blekkja menn, hann hefði farið „sparsamlega með sannleikann“:

„Þeir eru komnir á fulla ferð – einingar Úkraínuhers ná árangri með árásum sínum.·“

Hanna Majlar, vara-varnarmálaráðherra Úkraínu, sagði síðar föstudaginn 12. maí: „Óvinurinn hefur misst mikinn mannafla. Varnarlið okkar sótti tvo kílómetra fram skammt frá Bakhmut. Við höfum ekki tapað einni einustu stöð í Bakhmut í þessari viku.“

Rússneska varnarmálaráðuneytið sendi á hinn bóginn frá sér tilkynningu á samfélagssíðunni Telegram og sagði að fréttir sem hefði verið dreift um að  Rússar hefðu hörfað frá stöðvum sínum við víglínuna væru ekki sannleikanum samkvæmar.

Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, sagði við rússnesku TASS-fréttastofuna að hernaðarstaðan í austurhluta Úkraínu væri „mjög erfið“ en „ákveðnum markmiðum [hefði] verið náð“.

Nokkrir bloggarar hliðhollir Rússum hafa tekið undir mat Prigosjíns um stöðuna á vígvellinum.

Hugveitan Institute for the Study of War (ISW) sendi frá sér greiningu og mat sitt á gangi stríðsins að morgni föstudags 12. maí og hallaðist á sveif með þeim sem telja Rússa á undanhaldi við Bakhmut.

Niðurstaða ISW var að illa búnir rússneskir hermenn á jaðarsvæðum umhverfis Bakhmut bentu til þess að rússneska varnarmálaráðuneytið hefði gefist upp við þau áform að umkringja umtalsverðan hluta hers Úkraínu þar.

Rússneski stríðsfréttaritarinn Anastasia Kashevarova sagði að mannfall væri meira í her Pútins en þyrfti vegna þess að stjórnendur hans hefðu ekki nógu gott samband við Wagner-málaliðanna:

„Wagner-menn fóru af þessu jaðarsvæði vegna þess að þeir brutust annars staðar í gegnum víglínuna og 72. stórfylkið vissi ekki af þessu. Stórfylkið var með stórskotavopn þarna en það var ekkert árásarlið. Úkraínumenn héldu einfaldlega þangað.“

Þá sagði hún að Wagner-liðar og rússneskir hermenn gætu ekki talað saman vegna gagnkvæmrar óvildar og móðgana.

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …