Home / Fréttir / Úkraínuher sækir fram í suðri

Úkraínuher sækir fram í suðri

Úkraínumenn segjast hafa frelsað smábæ í suðurhluta lands síns, Robotyne, og þar með tekist að brjótast á áhrifamikinn hátt í gegnum varnarlínu Rússa.

Herinn segir að í liðinni viku hafi menn hans dregið fána Úkraínu að húni í þorpinu en Rússar hafi skotið á þá úr tveimur byggingum sem þeir áttu enn eftir að ná á sitt vald.

Úkraínuher segir að nú hafi tekist að brjótast í gegnum rússnesku varnarlínuna þar sem það var erfiðast í suðri og séu vonir bundnar við hraðari sókn.

Mánudaginn 28. ágúst sögðu stjórnvöld í Kyív að sóknin suður á bóginn hefði hafist eftir að þorpið náðist úr höndum Rússa. Engin staðfesting um undanhaldið hefur fengist frá Rússum.

Þótt fámenni sé í Robotyne skiptir lega þorpsins miklu hernaðarlega. Það er um 10 km fyrir sunnan framlínubæinn Orikhiv í Zaporizhzhia-héraði á mikilvægri leið til Tokmak þar sem Rússar hafa vega- og járnbrautarhnút á valdi sínu. Talið er að Úkraínuher stefni þangað næst.

Takist Úkraínumönnum að ná Tokmak opnast þeim greiðari leið en áður að Azovhafi og þar með til að höggva á samgönguæð Rússa á landi milli Donetsk og Krímskaga.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War segir í nýjasta mati sínu að Úkraínumenn séu í skotfæri við næstu varnarmannvirki Rússa þar sem þeir hafi sett upp skriðdrekavarnir og annan búnað sem svipi til þess sem einkenni aðrar varnarlínur þeirra.

Úkraínuher berst einnig við Rússa í austurhluta Úkraínu en þar miðar sókn þeirra hægar en við var búist vegna víðáttumikilla rússneskra jarðsprengjusvæða.

Þá sækja Úkraínumenn fram í suður frá bænum Bakhmut.

Varavarnarmálaráðherra Úkraínu segir að mjög hart sé barist í norðvesturhluta landsins þar sem Rússar reyni að endurheimta land sem þeir hafi áður misst.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …