Home / Fréttir / Úkraínuher grandar rússneskri flugskeytakorvettu – stjórnar kornsiglingum á Svartahafi

Úkraínuher grandar rússneskri flugskeytakorvettu – stjórnar kornsiglingum á Svartahafi

Flugskeytakorvettan Ivanovets sem grandað var 1. febrúar 2024.

Tundurskeytadrónar Úkraínuhers grönduðu rússnesku herskipi skammt frá Krímskaga á Svartahafi aðfaranótt fimmtudagsins 1. febrúar.

Leyniþjónusta hers Úkraínu, GUR, birti óskýrt myndskeið  sem sýndi nokkra mannlausa úkraínska báta – sem kallaðir eru tundurskeytadrónar – nálgast rússneskt flugskeytaskip, korvettuna Ivanovets, áður en hún sést síðan í ljósum logum.

Úkraínumenn fullyrða að korvettan hafi sokkið eftir að nokkrir drónar hittu hana. Skipið fór á hliðina og sökk. Virði þess er talið vera á milli 60-70 milljónir dollara að sögn varnarmálaráðuneytis Úkraínu.

Rússneskir bloggarar um hernaðarmál sem standa nærri stjórnvöldum staðfestu í færslum á Telegram að óvinurinn hefði sökkt Ivanovets, „stórum flugskeytabáti“.

Um borð í korvettum af þessari stærð er venjulega um 40 manna áhöfn. Engar fréttir bárust um örlög hennar.

Frá upphafi Úkraínustríðsins hafa Úkraínumenn sökkt nokkrum rússneskum herskipum á Svartahafi sem höfðu heimahafnir í Sevastopol á Krímskaga og í nágrannahöfninni í Novorossijsk.

Þá hafa Úkraínumenn einnig notað tundurskeytadróna til að ráðast á Krímbrúna sem tengir Krímskaga og rússneska meginlandið yfir Kertsj-sund.

Úkraínuher ræður ekki yfir neinum herskipum en hefur samt náð undirtökunum á Svartahafi með tundurskeytadrónunum sem annaðhvort eru sendir eftir yfirborði sjávar eða undir því.

Drónarnir eru hlaðnir sprengjuefni og myndavélum sem senda myndir á skjá þess sem stjórnar þeim úr fjarlægð.

Talið er að rússneski sjóherinn hafi kallað verulegan hluta skipa sinna á brott frá flotahöfninni í Sevastopol af ótta við árásir Úkraínumanna.

Jafnframt hefur Úkraínumönnum tekist að halda siglingaleiðum fyrir kornflutningaskip opnum á Svartahafi án samkomulags við Rússa.

Í desember 2023 fluttu Úkraínumenn út 1,73 milljón tonn af hveiti og 3,45 milljón tonn af korni, 34% og 45% meira af hvoru tveggja miðað við nóvember 2023. Þótt þetta sé ekki jafnmikið magn á mánuði og áður en Pútin réðst inn í Úkraínu er það meira en flutt var út á þeim tíma sem samningurinn við Rússa um kornflutning á Svartahafi var í gildi.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …