
Rússar skýrðu frá því að kvöldi fimmtudags 14. apríl (kl. 20.22 að ísl. tíma) að beitiskipið Moskva, flaggskip rússneska Svartahafsflotans, búið stýriflaugum, hefði sokkið aftan við dráttarbát dró beitiskipið í vondu veðri á leið til hafnar.
Fyrr þennan sama dag sögðu Úkraínumenn að þeir hefðu gert eldflaugaárás á skipið. Rússar sögðu að skipið hefði laskast við sprengingu í skotfærum um borð í Moskvu. Þeir minntust ekki á árás á skipið.
Herfræðingar eru sammála um að örlög beitiskipsins Moskvu hljóti að vera reiðarslag fyrir Vladimir Pútin og menn hans. Beitiskipið var eitt af djásnum rússneska flotans, smíðað á tíma Sovétstjórnarinnar. Stefndi dráttarskip með skipið í flotastöð Rússa í Sevastapol á Krímskaga þegar það sökk.
„Þegar skipið var dregið til hafnar valt það vegna skaða á skrokki þess við eldsvoða sem varð þegar skotfæri sprungu. Vegna sjógangs sökk skipið,“ sagði TASS-fréttastofan og vitnaði í varnarmálaráðuneytið
Úkraínumenn sögðu að eldsvoðann mætti rekja til tveggja stýriflauga af Neptune-gerð sem þeir hefðu skotið að skipinu frá einu virkja sinna skammt frá hafnarborginni Odessa. Hundruð sjómanna kunna að hafa týnt lífi í árásinni. Alls voru 510 í áhöfn skipsins. Úkraínumenn smíða Neptune-flaugarnar með því að nýta til þess gamlar sovéskar flaugar.
Eftir að árásin á skipið var gerð reyndu rússnesk stjórnvöld að gera sem minnst úr skaðanum á því. Þau viðurkenndu að vísu að kviknað hefði í því og hundruð manna úr áhöfninni hefðu verið fluttir um borð í önnur skip á Svartahafi. Stjórnvöldin sögðu jafnframt að skipið væri ofansjávar og yrði dregið til hafnar. Hvorki þá né síðar var minnst á árás hers Úkraínu.
Herfræðingar benda á að skipskaðinn sé enn eitt stóráfallið fyrir rússnesku herstjórnina síðan Vladimir Pútin Rússlandsforseti hóf innrásina í Úkraínu 24. febrúar. Þar hefur margt farið í handaskolum hjá Rússum sem hafa orðið fyrir miklu mannfalli og ekki náð markmiðum sínum, meðal annars hrakist á brott frá höfuðborginni Kyív.
Vekur undur að Úkraínumönnum sem eiga engan starfhæfan herflota skyldi takast að granda flaggskipinu rússneska Svartahafsflotans. Frá upphafi stríðsins hefur herfloti Rússa haldið sig undan strönd Úkraínu og lagt rússneskum landhermönnum lið í aðgerðum þeirra og tilraunum til að halda Úkraínumönnum frá strandhéruðum lands síns.
Embættismaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði að Rússar hefðu siglt herskipum sínum í 80 mílna fjarlægð frá strönd Úkraínu eftir að fréttir bárust af eldinum um borð í Moskvu – líklega til að forðast stýriflaugar Úkraínumanna.
Suður-herstjórn Úkraínu sagði fimmtudaginn 14. apríl að skotið hefði verið á beitiskipið síðdegis daginn áður og þá hefði orðið eldsvoði. Rússnesk björgunarskip gátu ekki athafnað sig vegna þess að skotfæri sprungu um borð í Moskvu auk þess sem veðrið var vont. Þá strax tók skipið að sökkva, 60 mílur frá landi.
Moskva hefur undanfarna tvo mánuði haldið sig úti á Svartahafi. Yfirleitt í nágrenni við Snákaeyju þar sem það gerðist snemma í stríðinu að hermenn Úkraínu sögðu skipherranum og áhöfn hans að fara til fjandans. Flaug frétt um þetta um heim allan og þótti gefa til kynna að Úkraínuher teldi sig hafa í fullu tré við Rússa.
Beitiskipið Moskva var smíðað árið 1983 á Sovéttímanum. Gerðar voru verulegar endurbætur á skipinu árið 2000. Síðan hefur verið lappað upp á skipið en árið 2015 var fallið frá meiriháttar viðhaldi á því.
Skipið gat borið 16 langdrægar stýriflaugar. Talið var að öflugt ratsjárkerfi skipsins auðveldaði áhöfn þess að verjast árás af sjó, úr lofti og skotflaugum frá kafbátum.
Heimildarmenn með tengsl við rússneska Wagner-málaliðahópinn telja að Bayraktar-drónar hafi verið notaðir til að trufla ratsjárkerfi skipsins áður en árásin var gerð, þá er einnig hugsanlegt að drónar hafi verið notaðir til að beina árásarflaugunum á réttan stað.