
Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á að helsta ósk Volodymyrs Zelenskíjs Úkraínuforseta rætist.
Hver ríkisstjórn NATO-lands eftir aðra tilkynnir nú að úkraínskum flughermönnum verði leyft að æfa sig á F-16-þotum með flugher viðkomandi lands.
F-16-þoturnar eru smíðaðar í Bandaríkjunum og þaðan þarf leyfi til að eigendur þeirra geti afhent þær þriðja aðila. Að morgni laugardags 20. maí tilkynnti Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, að bandamönnum Bandaríkjanna væri frjálst að afhenda Úkraínumönnum vélarnar. Yrði það gert eftir nokkra mánuði í samráði við Bandaríkjastjórn eftir að flugmenn hefðu fengið þjálfun til að fljúga þotunum.
Danska ríkisstjórnin tekur þátt í þessu verkefni og af því tilefni ræddi danska ríkisútvarpið, DR, við Anders Puck Nielsen við danska Varnarmálaháskólann, Forsvarsakademiet.
Hann bendir á að Úkraínuher ráði yfir fáeinum, gömlum rússneskum orrustuþotum og af augljósum ástæðum verði þær ekki endurnýjaðar í samvinnu við Rússa. Úkraínumenn þurfi því mjög á nýjum hervélum að halda.
Það kunni að taka langan tíma að koma á fót nothæfum fjölda af F-16-vélum í Úkraínu. Bæði þurfi að finna menn sem kunni að fljúga þeim og eins að tryggja að vélarnar verði nógu margar til að þær geti haldið aftur af Rússum sem ráði yfir mun stærri flugher en Úkraínumenn.
Orrustuþoturnar séu notaðar til margra hluta, til varna með því að skjóta niður rússneskar stýriflaugar og á vígvellinum til stuðnings landhernum. Þá sé þeim einnig beitt gegn rússneskum flugvélum í lofthernaði og til að skjóta niður rússnesk loftvarnakerfi við víglínuna.
Anders Puck Nielsen minnir á að af vestrænni hálfu sé sett það meginskilyrði við afhendingu vopna til Úkraínuhers að þeim sé ekki beitt á rússnesku landsvæði, þetta eigi einnig við um orrustuþoturnar. Hins vegar yrði þeim beitt á svæðum sem Rússar hafa hertekið frá Úkraínumönnum.
Hann segir að Úkraínuher virði þetta skilyrði af hálfu Vesturlanda. Öðru máli gegni um vopn sem Úkraínumenn framleiði sjálfir. Þeir skjóti til dæmis heimasmíðuðum flugskeytum inn í Rússland.
DR ræðir einnig við Flemming Spidsboel, sérfræðing hjá Dönsku utanríkismálastofnuninni, DIIS. Hann segir að af hálfu rússneskra yfirvalda verði afhending orrustuþotnanna sögð enn ein staðfesting á óvild Vesturlanda í garð Rússa. Vladimir Pútin Rússlandsforseti heldur þeirri skoðun að rússnesku þjóðinni að ráðist hafi verið á hana úr vestri.
„Við skulum búa okkur undir að rússnesk stjórnvöld mótmæli og saki Vesturlönd um að stigmagna og lengja stríðið. Og að gripið verði til mótaðgerða. Það yrði að minnsta kosti í samræmi við það sem við höfum áður séð,“ segir Flemming Splidsboel.
Um hádegisbil laugardaginn 20. maí sagði Alexander Gruskjo, vara-utanríkisráðherra Rússlands:
„Vesturlönd taka gífurlega áhættu afhendi þau F-16-orrustuþotur til Úkraínu.“