Home / Fréttir / Úkraínuher fær breska og þýska orrustuskriðdreka

Úkraínuher fær breska og þýska orrustuskriðdreka

Breskur Challenger 2 skriðdreki.

Orrustuskriðdrekar frá Bretlandi og Þýskalandi, af gerðunum Challenger 2 og Leopard 2, eru komnir til Úkraínu og verða til þess að efla herafla landsins.

Stjórnvöld í Kyív fagna því að skriðdrekarnir bætist við her þeirra áður en endanleg ákvörðun er tekin um vorsókn gegn rússneska innrásarliðinu.

Lengi var rætt um það á samstarfsvettvangi stuðningsþjóða Úkraínu hvort senda ætti orrustuskriðdreka til landsins af ótta við að með því yrðu átökin við Rússa stigmögnuð.

Bretar urðu fyrstir til að taka af skarið í skriðdrekamálinu og loks ákváðu Þjóðverjar að stíga sama skref eftir töluverðan þrýsting bandamanna sinna í NATO.

Ráðamenn í Moskvu sögðu á sínum tíma að öllum vestrænum skriðdrekum sem kæmu til Úkraínu yrði gjöreytt. Rússneskt fyrirtæki hét þeim hermanni sem yrði fyrstur til að granda eða ná slíkum skriðdreka á sitt vald fjárhæð, 72.000 dollurum, um eina milljón ísl. kr.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði mánudaginn 27. mars að þýska stjórnin hefði sent „mjög nútímalega“ skriðdreka til Úkraínu.

Nokkru síðar sagði þýska varnarmálaráðuneytið að 18 skriðdrekar hefðu verið afhentir Úkraínuher.

„Skriðdrekar okkar eru komnir í hendur vina okkar í Úkraínu eins og lofað var og á réttum tíma,“ sagði þýski varnarmálaráðherrann, Boris Pistorius í tilkynningu. „Ég er viss um að það muni um þá á vellinum.“

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …