Home / Fréttir / Úkraínuher eyðir rússneskum drónum á flugi

Úkraínuher eyðir rússneskum drónum á flugi

Á myndinni má sjá reyk frá rússneskum dróna sem var skotinn niður yfir Kyív,.

Talsmaður flughers Úkraínu sagði að morgni föstudags 30. desember að Rússar hefðu gert 16 „kamikaze“ drónaárásir á skotmörk víðs vegar um landið en tekist hefði að eyðileggja alla drónana áður en þeir náðu til skotmarka sinna. Drónunum hefði verið skotið úr suðaustri og norðri.

Herráð Úkraínu sendi frá sér tilkynningu að morgni föstudags 30. desember um að Rússar hefðu gert 85 flugskeytaárásir, 35 loftárásir með flugvélum og 63 árásir af ýmiss konar eldflaugaskotpöllum síðustu 24 klukkustundirnar.

Þá sagði einnig í tilkynningu herráðsins að rússneski herinn hefði skotið á 20 byggðakjarna umhverfis sundursprengda bæinn Bakhmut í austurhluta Úkraínu þar sem harðast hefur verið barist undanfarið og á meira en 25 byggðakjarna í nágrenni við Kherson í suðurhluta landsins.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði að flest héruð sem urðu fyrir miklum lofrárásum fimmtudaginn 29. desember hefðu mátt þola rafmagnsleysi. Rafmagnsskorturinn hefði „sérstaklega leitt til erfiðleika“ í Kyív, Odessa og Kherson en auk þess í Lvív við vestur landamærin hjá Póllandi.

„Þetta er þó ekkert í samanburði við það sem hefði getað gerst nytum við ekki hetjulegrar framgöngu loftvarnasveita okkar og flugvarna,“ sagði Zelenskíj.

Herráð Úkraínu sagði 30. desember að 105.259 rússneskir hermenn hefðu fallið síðan 24. febrúar 2022. Þá hefðu Rússar tapað 3.026 skriðdrekum, 6.059 bryndrekum, 4.683 flutninga- og tankbílum, 2.010 stórskotaliðskerfum, 423 fjöl-skotpöllum, 212 loftvarnakerfum, 283 flugvélum, 268 þyrlum, 1.740 drónum og 16 skipum.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …