
Í Zaporizjzja-héraði hefur nokkrum hermönnum Úkraínu tekist að komast yfir skriðdrekagildrur og svokallaðar drekatennur – járnþríhyrninga festa í steypta fyrirstöðu – sem mynda eina af þremur varnarlínum Rússa á þessu svæði.
Þetta kemur fram í nýjustu úttekt bandarísku hugveitunnar The Institute for the Study of War (ISW) sem vísar til þess að gps-boð bendi til þess að hermenn Úkraínu séu nærri bænum Verbove sem sé austan við varnarlínu Rússa.
ISW undirstrikar að þetta séu fótgönguliðar í framlínu Úkraínuhers en ekki sveitir búnar þungavopnum. Þess vegna fullyrðir hugveitan ekki að Úkraínumenn hafi brotist í gegnum þessa varnarlínu. Hún telur hins vegar líklegt að Úkraínuher hörfi ekki frá þeim stað þar sem fótgönguliðarnir séu.
Oleksandr Tarnavskij hershöfðingi sem fer fyrir sókn Úkraínuhers í suðri sagði við breska blaðið The Guardian um helgina að Úkraínuher hefði brotist í gegnum fremstu varnarlínu Rússa. Hann staðhæfði að þessi varnarlína væri miklu sterkari en varnarlínurnar tvær að baki henni.
Tarnavskij bendir á að Rússar hafi nýtt 60% af tíma sínum og búnaði til að setja upp fremstu varnarlínuna en 20% á hvora línu sem er henni að baki.
Kim Jong-un til Vladivostock
Bandaríkjastjórn lét The New York Times (NYT) í té upplýsingar mánudaginn 4. september um að einræðisherra N-Kóreu, Kim Jong-un, væri á förum til Vladivostock á Kyrrahafsströnd Rússlands í september til fundar við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.
Segir NYT að þeir muni ræða vopnasölu frá N-Kóreu beint til herliðs Rússa á vígvellinum í Úkraínu.
N-Kórea er einangraðasta harðstjórnarland heims og með því að segja frá fyrirhuguðum fundi einræðisherranna dregur Bandaríkjastjórn athygli að hve aðkrepptur Pútín er auk þess sem ýtt er undir ótta Kims við að fara úr landi. Hann gerir það ekki án öryggisráðstafana úr öllu hófi í kringum brynvarða járnbrautalestina sem hann notar.
Samkvæmt samþykktum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er N-Kóreumönnum bannað að selja öðrum ríkjum vopn. Bandaríkjastjórn segir að þetta bann hafi þeir þegar rofið með því að selja Rússum skotfæri.
Geri Pútín og Kim Jong-un vopnaviðskiptasamning brjóta þeir allar alþjóðasamþykktir um gerð slíkra samninga og hafa að engu alþjóðastofnanirnar sem eiga að tryggja að samningarnir séu virtir.
Sérfræðingur Berlingske telur að tilgangur þeirra sé því að hafa núverandi skipan alþjóðamála sem reist er á lögum og reglu að engu. Það bendi til þess að Pútín telji sig ekki lengur hafa neinu að tapa. Kim Jong-un er nú þegar úrhrak á alþjóðavettvangi.
Heimild: Berlingske.