
Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, varaði í þjóðhátíðarræðu sunnudaginn 23. ágúst við hættu á innrás Rússa. Hann sagði að óvinurinn fylgdi fram hugmyndinni um beina árás á Úkraínu í ræðu sem hann flutti á Maidan, Sjálfstæðistorginu í hjarta Kænugarðs. Taldi forsetinn að meira en 50.000 hermenn væru í Rússlandi, við landamæri Úkraínu, og á átakasvæðinu í Donbass, innan landamæra Úkraínu, væru 40.000 manns undir vopnum, þar af 9.000 virkir rússneskir hermenn. Ráðamenn Rússlands hafna öllum ásökunum í þessa veru.
„Rússneska stjórnin hefur lagt stríðsmönnunum til 500 skriðdreka, 400 stórskotaliðsvopn og 950 brynvarðar bifreiðar. Í þessari viku einni hafa þrjár stórar fylkingar hermanna farið yfir landamæri okkar í áttina að Luhansk, Donezk og Debalweze,“ sagði forsetinn.
Hann boðaði að her Úkraínu yrði enn efldur. Rúmlega 2.000 hermenn frá austurvígstöðvunum gengu án hergagna um Sjálfstæðistorgið á þjóðhátíðinni. Þá sagði Porosjenko: „Á 25. afmælisári sjálfstæðis lands okkar göngum við á þunnum ís. Við verðum að átta okkur á því að minnsta feilspor gæti verið banvænt.“